Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Trú

Trú

Sumir telja sig trúaða en eiga þó erfitt með að skilja hvað trú er. Hvað er trú og hvers vegna skiptir hún máli?

Hvað er trú?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

Margir halda að trúað fólk hafi einfaldlega tekið trú án þess að hafa nein haldbær rök fyrir henni. Hugsum okkur manneskju sem segist trúa á Guð. Þegar hún er spurð hvers vegna hún trúi svarar hún: „Ég er alin þannig upp“ eða „mér hefur alltaf verið kennt að Guð sé til“. Manni gæti fundist lítill munur á því að vera trúaður og að vera trúgjarn þegar maður fær slík svör.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Til að vera fullviss um eitthvað þarf maður að hafa haldbær rök fyrir því. Orðið, sem er þýtt „fullvissa“, merkir samkvæmt frummálinu meira en aðeins tilfinning eða óskhyggja. Trú felur í sér sannfæringu sem er byggð á rökum.

„Ósýnilega veru hans [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ – Rómverjabréfið 1:20.

Hvers vegna er mikilvægt að hafa trú?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.“ – Hebreabréfið 11:6.

Eins og minnst var á fyrr í greininni trúa margir á Guð aðeins vegna þess að þeim hefur verið kennt það. Þeir segja kannski: „Ég hef mína barnatrú.“ En Guð vill að þeir sem tilbiðja hann séu fullvissir um að hann sé til og að hann elski þá. Það er ein ástæða þess að Biblían leggur áherslu á að við leitum Guðs í einlægni – til að geta kynnst honum í raun.

„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.

Hvernig er hægt að öðlast trú?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

„Trúin kemur ... af því að heyra,“ segir í Biblíunni. (Rómverjabréfið 10:17) Fyrsta skrefið til að byggja upp trú á Guð er því að „heyra“ hvað Biblían segir um hann. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Að rannsaka Biblíuna hjálpar manni að finna áreiðanleg svör við mikilvægum spurningum eins og til dæmis: Hver er Guð? Hvaða sannanir höfum við fyrir tilvist hans? Er Guði í raun annt um mig? Hvaða fyrirætlanir hefur Guð með framtíðina?

Allt í kringum okkur má sjá merki um tilvist Guðs.

Vottar Jehóva eru fúsir til að aðstoða þig við að kynna þér Biblíuna. Á vefsíðu okkar, jw.org/is, stendur: „Vottar Jehóva hafa ánægju af því að fræða aðra um Biblíuna en fólk er aldrei þvingað til að ganga í söfnuðinn. Við kynnum fyrir fólki það sem segir í Biblíunni en virðum rétt hvers og eins til að ákveða hverju hann trúir.“

Þegar upp er staðið þarf trú þín að vera byggð á haldbærum rökum sem þú finnur með því að skoða sannleiksgildi þess sem þú lest í Biblíunni. Þá fylgirðu fyrirmynd biblíunemenda á fyrstu öld sem „tóku við orðinu með mesta áhuga og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið“. – Postulasagan 17:11.

„Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ – Jóhannes 17:3.