Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Að fræða barnið um kynferðismál

Að fræða barnið um kynferðismál

VANDINN

Fyrir nokkrum áratugum höfðu foreldrar í það minnsta talsverða möguleika á að vera fyrstir til að ræða við barnið sitt um kynferðismál. Þeir gátu því útskýrt hlutina smám saman, allt eftir aldri barnsins og þörfum.

En nú er öldin önnur. „Sífellt yngri börn eru berskjölduð fyrir kynferðislegum boðskap. Auk þess inniheldur fjölmiðlaefni, sem ætlað er börnum, stöðugt meira af kynferðislegu efni,“ segir í bókinni The Lolita Effect. Er þetta börnum til góðs eða ills?

GOTT ER AÐ VITA

Siðlaust efni er að finna hvarvetna. Í bók sinni Talk to Me First skrifar Deborah Roffman að „samtöl, auglýsingar, kvikmyndir, bækur, söngtextar, sjónvarpsþættir, textaskilaboð, leikir, auglýsingaskilti og síma- og tölvuskjáir [séu] svo yfirfullir af kynferðislegum dylgjum, málfari og myndum að margir [unglingar, táningar og jafnvel ung börn] hljóti að álíta, að minnsta kosti ómeðvitað, að kynlíf sé ... það allra mikilvægasta í lífinu.“

Markaðssetning er hluti af vandanum. Auglýsingahönnuðir og kaupmenn bjóða klæðnað á börn sem ýtir undir kynferðislega athygli. Allt frá unga aldri læra börn því að leggja óhóflega áherslu á útlitið. „Söluaðilar vita að börn vilja falla inn í hópinn hjá jafnöldrum sínum og þeir notfæra sér það,“ segir í bókinni So Sexy So Soon. „Markmiðið með auglýsingunum og vörunum er ekki að fá börn til að hugsa um kynlíf“ heldur „að fá þau til að langa í nýjar vörur“.

Það er ekki nóg að veita upplýsingar. Eitt er að vita hvernig bíll virkar en annað að vera ábyrgur ökumaður. Á svipaðan hátt er eitt að vita ýmislegt um kynferðismál en annað að nota þá þekkingu til að taka viturlegar ákvarðanir.

Kjarni málsins: Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að kenna börnum sínum að ,temja skilningarvitin‘ svo að þau geti lært að „greina gott frá illu“. – Hebreabréfið 5:14, Biblían 1981.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Ræddu við barnið. Það er á þinni ábyrgð að ræða við börnin þín um kynferðismál sama hversu vandræðalegt þér kann að þykja það. Axlaðu ábyrgðina. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 22:6.

Hafðu samtölin ekki of löng. Í stað þess að eiga eitt langt samtal við barnið um kynferðismál skaltu nota tækifæri sem gefast inn á milli eins og þegar þið farið í bíltúr eða vinnið heimilisverk saman. Til þess að auðvelda barninu að opna sig skaltu spyrja það viðhorfsspurninga. Í stað þess að segja: „Finnst þér þetta flott auglýsing?“ gætirðu sagt: „Af hverju heldur þú að auglýsendur noti svona myndir til að selja vörurnar?“ Þegar barnið hefur tjáð sig gætirðu sagt: „Hvað finnst þér um það?“ – Ráðlegging Biblíunnar: 5. Mósebók 6:6, 7.

Hafðu aldur barnsins í huga. Þegar barnið er undir skólaaldri gætirðu kennt því réttu heitin á kynfærunum og frætt það um hvernig það geti varið sig gegn barnaníðingum. Eftir því sem barnið eldist geturðu frætt það um það helsta sem viðkemur getnaði. Þegar barnið eru komið á táningsaldurinn ættirðu að hafa frætt það um líkamlegar og siðferðilegar hliðar kynlífs.

Innprentaðu barninu góð gildi. Kenndu barninu, allt frá unga aldri, mikilvægi heiðarleika, ráðvendni og virðingar. Þegar þú síðan ræðir við barnið um kynferðismál hefurðu þegar lagt góðan grunn. Tjáðu barninu skýrt hver þín gildi eru. Ef þér finnst til dæmis rangt að fólk hafi kynmök fyrir hjónaband skaltu segja barninu það og útskýra síðan fyrir því hvers vegna það er rangt og skaðlegt. Í bókinni Beyond the Big Talk segir: „Unglingar stunda síður kynlíf ef þeir vita að foreldrum þeirra finnst rangt að unglingar stundi kynlíf.“

Vertu góð fyrirmynd. Farðu eftir þeim gildum sem þú innprentar barninu þínu. Ef þú hlærð til dæmis af grófum bröndurum, klæðir þig ósæmilega eða daðrar getur það grafið undan þeim gildum sem þú ert að reyna að kenna barninu. – Ráðlegging Biblíunnar: Rómverjabréfið 2:21.

Hafðu umræðurnar jákvæðar. Kynlíf er gjöf frá Guði og við réttar kringumstæður – í hjónabandi – getur það veitt mikla ánægju. (Orðskviðirnir 5:18, 19) Segðu barninu að þegar það er orðið fullorðið geti það notið þessarar gjafar án þess að upplifa þá hjartasorg og áhyggjur sem fylgja því að stunda kynlíf fyrir hjónaband. – 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19.