Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að sýna hógværð er vegur viskunnar

Að sýna hógværð er vegur viskunnar

Toñi, sem vinnur umönnunarstörf, hringdi dyrabjöllunni og kona á miðjum aldri kom til dyra. Konan gerði lítið úr Toñi og ávítti hana fyrir að koma ekki fyrr til að annast aldraða móður sína. Toñi var ekki sein til vinnu en bað samt konuna rólega afsökunar á þessum misskilningi.

Í NÆSTU heimsókn hellti konan sér aftur yfir Toñi. Hvernig brást hún við? „Þetta var mjög erfitt,“ viðurkennir hún. „Skammir hennar áttu engan veginn rétt á sér.“ Toñi bað samt konuna fyrirgefningar á ný. Hún sagði að hún skildi þær þjáningar sem konan var að kljást við.

Hvernig heldurðu að þú hefðir brugðist við ef þú hefðir verið í sporum Toñiar? Hefðirðu reynt að sýna hógværð og mildi? Hefðirðu átt erfitt með að hafa stjórn á skapinu? Óneitanlega getur verið erfitt að halda ró sinni í aðstæðum líkt og þeim sem lýst er í dæminu að ofan. Það getur verið mikil áskorun að sýna hógværð þegar við erum undir álagi eða okkur er ögrað.

Í Biblíunni eru kristnir menn þó hvattir til að vera hógværir. Orð Guðs tengir þennan eiginleika reyndar við visku. Jakob spyr: „Hver er vitur og skynsamur á meðal ykkar? Hann sýni það með því að vera hóglátur og vitur í allri breytni sinni.“ (Jak. 3:13) Hvernig er hógværð merki um viskuna að ofan? Og hvað getur hjálpað okkur að þroska með okkur þennan eiginleika og líkja þannig eftir Guði?

VISKAN Í ÞVÍ AÐ VERA HÓGVÆR

Hógværð getur dregið úr spennu. „Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði.“ – Orðskv. 15:1.

Reiðileg viðbrögð geta gert óþægilegar aðstæður verri því að þau bæta olíu á eldinn. (Orðskv. 26:21) Ef maður hins vegar bregst mildilega við hefur það oft róandi áhrif. Viðhorf þess sem er fjandsamlegur getur jafnvel breyst til hins betra.

Toñi upplifði það. Konan táraðist þegar hún sá hvað Toñi brást mildilega við. Hún útskýrði að persónuleg vandamál og fjölskylduerfiðleikar lægju þungt á sér. Toñi vakti áhuga hennar á Biblíunni og hún þáði biblíunámskeið – þökk sé því að Toñi var yfirveguð og friðsamleg í framkomu.

Hógværð getur gert okkur hamingjusöm. „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ – Matt. 5:5.

Hvers vegna eru hógværir hamingjusamir? Margir sem voru eitt sinn skapstyggir eru nú hamingjusamir vegna þess að þeir hafa þroskað með sér hógværð. Líf þeirra hefur breyst til hins betra og þeir vita að þeir eiga unaðslega framtíð í vændum. (Kól. 3:12) Adolfo, sem er farandhirðir á Spáni, minnist þess hvernig líf hans var áður en hann kynntist sannleikanum.

„Líf mitt hafði engan tilgang,“ segir Adolfo. „Ég missti oft stjórn á skapinu. Það var svo slæmt að sumir vina minna óttuðust jafnvel reiðiköst mín þar sem ég sýndi mikinn hroka og varð mjög ofbeldisfullur. Að lokum kom þó að þáttaskilum. Ég lenti í áflogum, fékk sex stungusár og blæddi næstum því út.“

Núna kennir Adolfo öðrum að vera hógværir og mildir með orðum sínum og verkum. Hann er hlýr og vingjarnlegur og margir laðast að honum. Adolfo segir að hann sé ánægður með þær breytingar sem honum hefur tekist að gera. Hann er líka þakklátur Jehóva fyrir að hjálpa sér að þroska með sér hógværð.

Það gleður Jehóva þegar við erum hógvær. „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“ – Orðskv. 27:11.

Satan, erkióvinur Jehóva, smánar hann stöðugt. Hann gerir það vísvitandi og Jehóva hefur því fulla ástæðu til að vera reiður. Samt segir í Biblíunni að Jehóva sé „seinn til reiði“. (2. Mós. 34:6) Þegar við leggjum okkur fram um að líkja eftir Jehóva, sem er seinn til reiði og hógvær, fetum við veg viskunnar og það gleður hann mikið. – Ef. 5:1.

Í núverandi heimi er umhverfið oft fjandsamlegt. Við getum hitt fólk sem er ,raupsamt, hrokafullt, illmálugt, rógberandi, taumlaust og grimmt‘. (2. Tím. 3:2, 3) Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að þjónar Guðs þroski með sér hógværð. Orð Guðs minnir okkur á að „sú speki sem að ofan er, hún er ... friðsöm, ljúfleg“. (Jak. 3:17) Við sýnum að við höfum tileinkað okkur visku Guðs þegar við erum friðsöm og ljúfleg. Slík viska fær okkur til að bregðast mildilega við þegar okkur er ögrað og það styrkir sambandið við Jehóva sem er uppspretta ótakmarkaðrar visku.