Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð bindur bráðlega enda á allar þjáningar

Guð bindur bráðlega enda á allar þjáningar

„Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn, án þess að þú hlustir? Um ofbeldi hef ég hrópað til þín án þess að þú kæmir til hjálpar.“ (Habakkuk 1:2, 3) Þetta sagði Habakkuk, góður maður sem Guð hafði velþóknun á. Sagði hann þetta vegna þess að hann skorti trú? Alls ekki. Guð fullvissaði Habakkuk um að hann hefði ákveðið tímann sem hann ætlaði að binda enda á þjáningar. – Habakkuk 2:2, 3.

Þegar við þjáumst, eða einhver nákominn okkur, er auðvelt að draga þá ályktun að Guð sé seinn á sér og að hann ætti að vera búinn að grípa inn í málin. En í Biblíunni segir: „Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.“ – 2. Pétursbréf 3:9.

HVENÆR TEKUR GUÐ Í TAUMANA?

Mjög fljótlega! Jesús sagði að ákveðin kynslóð yrði vitni að atburðum sem mynda einstakt tákn þess að ,veröldin væri að líða undir lok‘. (Matteus 24:3-42) Spádómur Jesú er að uppfyllast núna, sem er merki um að Guð grípi inn í málefni manna mjög bráðlega. *

En hvernig bindur Guð enda á allar þjáningar? Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann fram á mátt Guðs til að afnema þjáningar mannkyns. Lítum á nokkur dæmi um það.

Náttúruhamfarir: Eitt sinn þegar Jesús og postularnir voru á bát á Galíleuvatni ógnaði stormur lífi þeirra. En Jesús sýndi að hann og faðir hans geta stjórnað náttúruöflunum. (Kólossubréfið 1:15, 16) Jesús sagði einfaldlega við storminn: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Hvað gerðist næst? „Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“ – Markús 4:35-39.

Sjúkdómar: Jesús var þekktur fyrir að geta læknað alls konar sjúkdóma. Hann læknaði meðal annars blinda, fatlaða, flogaveika og holdsveika. „Alla þá er sjúkir voru læknaði hann.“ – Matteus 4:23, 24; 8:16; 11:2-5.

Hungur: Í Biblíunni er greint frá því að Jesús hafi tvisvar notað kraftinn frá föður sínum til að metta þúsundir manna með því að margfalda litlar matarbyrgðir. – Matteus 14:14-21; 15:32-38.

Dauði: Biblían greinir frá þrem einstaklingum sem Jesús reisti upp frá dauðum. Það sýnir greinilega að Jehóva Guð hefur vald yfir dauðanum. Einn þeirra sem Jesús reisti til lífs á ný hafði verið látinn í fjóra daga. – Markús 5:35-42; Lúkas 7:11-16; Jóhannes 11:3-44.

^ gr. 5 Hægt er að fá frekari upplýsingar um að við lifum núna á „síðustu dögum“ í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og hægt er að sækja hana án endurgjalds á www.mr1310.com/is.