Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir Jesú og verum kærleiksríkir kennarar

Líkjum eftir Jesú og verum kærleiksríkir kennarar

Líkjum eftir Jesú og verum kærleiksríkir kennarar

„Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ — JÓH. 7:46.

1. Hvernig brást fólk við kennslu Jesú?

HUGSAÐU þér hve heillandi það hlýtur að hafa verið að heyra Jesú kenna. Í Biblíunni fáum við nokkra hugmynd um þau áhrif sem hann hafði á fólk. Guðspjallaritarinn Lúkas segir til dæmis frá því að fólk í heimabæ Jesú hafi ‚undrast þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans‘. Matteus greinir frá því að þeir sem heyrðu fjallræðuna hafi verið djúpt snortnir af orðum Jesú. Og Jóhannes nefnir að menn, sem voru sendir til að handtaka Jesú, hafi snúið aftur tómhentir og sagt: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ — Lúk. 4:22; Matt. 7:28; Jóh. 7:46.

2. Hvaða aðferðum beitti Jesús þegar hann kenndi?

2 Þessum mönnum skjátlaðist ekki. Jesús var tvímælalaust mesti kennari sem uppi hefur verið. Hann kenndi á skýran og einfaldan hátt og rök hans voru óhrekjandi. Hann var leikinn í að beita líkingum, dæmisögum og spurningum. Hann lagaði kennsluna að viðmælendum sínum, hvort sem þeir voru af háum stéttum eða lágum. Það sem hann kenndi var í senn auðskilið og djúptækt. En það var ekki bara þetta sem gerði Jesú að þeim mikla kennara sem hann var.

Grundvöllurinn er kærleikur

3. Að hvaða leyti var Jesús öðruvísi kennari en trúarleiðtogarnir?

3 Meðal fræðimanna og farísea voru eflaust gáfaðir og fróðir menn sem kunnu að miðla þekkingu. Af hverju kenndi Jesús allt öðruvísi en þeir? Trúarleiðtogunum þótti ekki vænt um fólk heldur fyrirlitu það og sögðu að ‚almúginn væri bölvaður‘. (Jóh. 7:49) Jesús fann hins vegar til með fólki því að „menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa“. (Matt. 9:36) Hann var hlýr, umhyggjusamur og vingjarnlegur. Trúarleiðtogarnir áttu ekki í sér kærleika til Guðs. (Jóh. 5:42) Jesús elskaði hins vegar föður sinn á himnum og hafði yndi af því að gera vilja hans. Trúarleiðtogarnir rangsneru orðum Guðs eftir eigin hentisemi en Jesús elskaði „Guðs orð“ — lifði eftir því, kenndi það, skýrði og varði. (Lúk. 11:28) Kristur var kærleiksríkur maður og það réð því hvað hann kenndi, hvernig hann kenndi og hvernig hann kom fram við fólk.

4, 5. (a) Af hverju er mikilvægt að vera kærleiksríkur kennari? (b) Af hverju eru þekking og færni líka mikilvæg til að kenna?

4 Hvað um okkur? Við erum fylgjendur Krists og okkur langar til að líkja eftir honum í þjónustu okkar og lífi almennt. (1. Pét. 2:21) Það er því ekki aðeins markmið okkar að miðla fólki biblíuþekkingu heldur einnig að endurspegla eiginleika Jehóva, einkum kærleikann. Hvort sem við búum yfir mikilli þekkingu eða bara svolítilli, og hvort sem við erum mjög færir kennarar eða bara í meðallagi eigum við auðveldara með að ná til hjartna fólks ef okkur þykir vænt um það. Til að ná árangri í kennslustarfi okkar þurfum við að líkja eftir Jesú með því að vera kærleiksríkir kennarar.

5 Til að vera góðir kennarar þurfum við auðvitað að þekkja kennsluefnið og kunna að miðla þekkingu okkar. Jesús hjálpaði lærisveinunum á báðum sviðum og Jehóva hjálpar okkur á sama hátt fyrir milligöngu safnaðarins. (Lestu Jesaja 54:13; Lúkas 12:42.) Engu að síður ættum við að leggja okkur fram um að nota ekki aðeins hugann heldur einnig hjartað þegar við kennum. Þegar þekking, færni og kærleikur fara saman getur árangurinn orðið mjög góður. Hvernig getum við þá sýnt kærleika þegar við kennum? Hvernig gerðu Jesús og lærisveinar hans það? Lítum nánar á málið.

Við verðum að elska Jehóva

6. Hvernig tölum við um þá sem við elskum?

6 Við höfum ánægju af því að tala um það sem er okkur kært. Við lifnum öll við þegar við ræðum um eitthvað sem stendur hjarta okkar nærri. Við geislum af eldmóði og hlýju þegar við tölum um einhvern sem við elskum. Yfirleitt langar okkur til að segja öðrum frá þessari persónu. Við tölum lofsamlega um hana og tökum upp hanskann fyrir hana. Við gerum þetta vegna þess að okkur langar til að aðrir kynnist eiginleikum hennar jafn vel og við og laðist að henni.

7. Hvað gerði Jesús af því að hann elskaði Guð?

7 Áður en við getum kennt öðrum að elska Jehóva þurfum við að þekkja hann sjálf og elska hann. Sönn tilbeiðsla byggist meira að segja á því að elska Guð. (Matt. 22:36-38) Jesús er okkur fullkomin fyrirmynd. Hann elskaði Jehóva af öllu hjarta, huga, sál og mætti. Hann hafði verið óralengi með föður sínum á himnum, hugsanlega milljarða ára, og þekkti hann náið. Og hvað fannst honum um hann? „Ég elska föðurinn,“ sagði hann. (Jóh. 14:31) Þessi kærleikur birtist í öllu sem Jesús sagði og gerði. Hún var honum hvöt til að gera alltaf það sem Guð hafði þóknun á. (Jóh. 8:29) Hún knúði hann til að fordæma trúarleiðtoga sem þóttust koma fram fyrir Guðs hönd en voru hræsnarar. Hún var honum líka hvöt til að segja frá Jehóva og hjálpa öðrum að kynnast honum og læra að elska hann.

8. Hvað gerðu lærisveinar Jesú af því að þeir elskuðu Jehóva?

8 Lærisveinar Jesú á fyrstu öld elskuðu Jehóva líkt og hann, og það var þeim hvöt til að boða fagnaðarerindið af miklu kappi og hugrekki. Þeir fylltu Jerúsalem af kenningu sinni jafnvel þó að voldugir trúarleiðtogar beittu sér gegn þeim. Lærisveinarnir gátu hreinlega ekki hætt að tala um það sem þeir höfðu séð og heyrt. (Post. 4:20; 5:28) Þeir vissu að Jehóva var með þeim og treystu að hann blessaði þá — og það gerði hann sannarlega! Innan við 30 árum eftir að Jesús dó gat Páll postuli skrifað að fagnaðarerindið hefði verið boðað „öllu sem skapað er í heiminum“. — Kól. 1:23.

9. Hvernig getum við styrkt kærleika okkar til Guðs?

9 Ef okkur langar til að vera dugmiklir kennarar þurfum við að gæta þess að styrkja kærleikann til Guðs jafnt og þétt. Hvernig gerum við það? Með því að tala oft við Guð í bæn. Við styrkjum líka kærleikann til hans með því að lesa í orði hans og biblíutengdum ritum, og með því að sækja safnaðarsamkomur. Við elskum Guð æ heitar eftir því sem við kynnumst honum betur. Aðrir sjá hvernig við tjáum kærleikann til Jehóva í orðum okkur og verkum og laðast kannski að honum. — Lestu Sálm 104:33, 34.

Við þurfum að elska sannleikann sem við kennum

10. Hvað er aðalsmerki góðs kennara?

10 Það er aðalsmerki góðs kennara að hann er sannfærður um gildi þess sem hann kennir. Hann þarf að trúa að það sé satt og rétt og hann þarf að trúa að það sé verðmætt. Ef kennari hefur brennandi áhuga á efninu hefur það sterk áhrif á nemendur hans. Ef kennari er ekki sannfærður um gildi efnisins getur hann tæplega vænst þess að nemendurnir hrífist af því sem þeir heyra. Vanmettu aldrei þau áhrif sem þú hefur á biblíunemendur með fordæmi þínu. „Hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans,“ sagði Jesús. — Lúk. 6:40.

11. Af hverju elskaði Jesús sannleikann sem hann kenndi?

11 Jesús elskaði sannleikann sem hann kenndi. Hann vissi að hann hafði verðmætar upplýsingar fram að færa — sannleikann um föður sinn á himnum, sjálft „Guðs orð“ og „orð eilífs lífs“. (Jóh. 3:34; 6:68) Það sem Jesús kenndi var eins og skært ljós sem afhjúpaði hið illa og upplýsti hið góða. Það veitti auðmjúkum von og huggun, fólki sem falstrúarleiðtogar blekktu og djöfullinn undirokaði. (Post. 10:38) Ást Jesú á sannleikanum birtist ekki aðeins í því sem hann kenndi heldur í öllu sem hann gerði.

12. Hvernig leit Páll postuli á fagnaðarerindið?

12 Lærisveinar Jesú líktu eftir honum. Sannleikurinn um Jehóva og Jesú var þeim svo mikils virði að andstæðingum tókst ekki að koma í veg fyrir að þeir boðuðu hann meðal fólks. Páll skrifaði trúsystkinum sínum í Róm: „Því fýsir mig að boða fagnaðarerindið . . . Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir.“ (Rómv. 1:15, 16) Páll taldi það mikinn heiður að fá að boða sannleikann. Hann skrifaði: „Mér . . . var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists.“ (Ef. 3:8) Það er auðvelt að sjá fyrir sér hve ákafur Páll var þegar hann fræddi aðra um Jehóva og fyrirætlun hans.

13. Af hverju er fagnaðarerindið ákaflega verðmætt?

13 Fagnaðarerindi Biblíunnar gerir okkur kleift að kynnast skaparanum og eignast náið samband við hann. Fagnaðarerindið gefur fullnægjandi svör við stóru spurningunum í lífinu. Það býr yfir krafti til að breyta lífi okkar, veita okkur von og styrkja okkur þegar á móti blæs. Það gerir líf okkar innihaldsríkt og vísar veginn til eilífs lífs. Engin menntun er verðmætari eða mikilvægari en þekking á fagnaðarerindinu. Það er ómetanleg gjöf sem við höfum fengið og mikill gleðigjafi. Og við aukum gleðina ef við deilum þessari gjöf með öðrum. — Post. 20:35.

14. Hvernig getum við lært að meta enn betur það sem við kennum öðrum?

14 Hvernig geturðu lært að meta fagnaðarerindið enn betur? Þegar þú lest í Biblíunni skaltu doka við af og til og hugleiða það sem þú lest. Ímyndaðu þér að þú sért í för með Jesú þegar hann boðar fagnaðarerindið eða ferðist með Páli postula. Hugsaðu þér að þú sért staddur í nýja heiminum og sjáðu fyrir þér hve ólíkt lífið er því sem nú er. Hugleiddu þá blessun sem það hefur veitt þér að hlýða fagnaðarerindinu. Biblíunemendur þínir skynja hve vænt þér þykir um fagnaðarerindið. Það er því ærin ástæða til að íhuga gaumgæfilega það sem við höfum lært og hafa gát á kennslu okkar. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.

Við þurfum að elska náungann

15. Af hverju er mikilvægt að kennara þyki vænt um nemendur sína?

15 Góður kennari veit hvernig hann á að láta nemendum sínum líða vel svo að þeir hafi áhuga á að læra og tjá sig um námsefnið. Kærleiksríkur kennari miðlar þekkingu af því að honum er annt um nemendur sína. Hann lagar kennsluna að þörfum þeirra og skilningi. Hann ber skynbragð á getu þeirra og aðstæður. Nemendur skynja það ef kennaranum þykir vænt um þá og þeir hafa ánægju af náminu og hann af kennslunni.

16. Hvernig sýndi Jesús kærleika?

16 Jesús sýndi þess konar kærleika. Og sterkasta mynd kærleikans birtist þegar hann lagði fullkomið líf sitt í sölurnar til að bjarga öðrum. (Jóh. 15:13) Meðan hann þjónaði á jörð var hann óþreytandi að liðsinna fólki og fræða það um himneskan föður sinn. Hann ætlaðist ekki til að fólk kæmi til sín heldur fór fótgangandi langar vegalengdir til að segja því frá fagnaðarerindinu. (Matt. 4:23-25; Lúk. 8:1) Hann var þolinmóður og skilningsríkur. Hann leiðrétti lærisveinana mildilega þegar þeir þurftu á leiðréttingu að halda. (Mark. 9:33-37) Hann hvatti þá með því að láta í ljós að hann treysti að þeir yrðu dugandi boðberar fagnaðarerindisins. Enginn maður hefur sýnt nemendum sýnum meiri kærleika. Lærisveinar hans fundu sig knúna til að endurgjalda kærleika hans og halda boðorð hans. — Lestu Jóhannes 14:15.

17. Hvernig sýndu lærisveinar Jesú kærleika sinn til fólks?

17 Lærisveinum Jesú þótti einnig ákaflega vænt um þá sem þeir fluttu fagnaðarerindið. Þeir þoldu ofsóknir og settu sig í lífshættu til að þjóna öðrum og koma fagnaðaerindinu á framfæri. Páll postuli lýsti á hjartnæman hátt hve vænt lærisveinunum þótti um þá sem tóku við fagnaðarerindinu. Hann skrifaði: „Ég var mildur á meðal ykkar, eins og móðir sem hlúir að börnum sínum. Ég bar slíkt kærleiksþel til ykkar að glaður hefði ég ekki einungis gefið ykkur fagnaðarerindi Guðs heldur og mitt eigið líf, svo ástfólgin voruð þið orðin mér.“ — 1. Þess. 2:7, 8.

18, 19. (a) Af hverju erum við fús til að færa fórnir í þágu boðunarstarfsins? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að fólk tekur eftir kærleika okkar.

18 Vottar Jehóva nú á tímum fínkemba jörðina í leit að þeim sem þrá að þekkja Guð og þjóna honum. Síðastliðin 17 ár höfum við varið yfir einum milljarði klukkustunda árlega til að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum, og við höldum starfi okkar áfram. Við gerum það af fúsu geði þó svo að við þurfum að fórna tíma okkar, kröftum og fjármunum til þess. Við skiljum, líkt og Jesús, að það er vilji föður okkar á himnum að fólk fái þekkingu sem veitir því eilíft líf. (Jóh. 17:3; 1. Tím. 2:3, 4) Það er kærleikur sem knýr okkur til að hjálpa hjartahreinu fólki að kynnast Jehóva og læra að elska hann líkt og við gerum.

19 Fólk tekur eftir mannkærleika okkar. Brautryðjandasystir í Bandaríkjunum skrifar oft bréf til að hughreysta fólk sem hefur misst ástvini. Maður nokkur skrifaði henni til baka: „Fyrstu viðbrögð mín voru undrun yfir því að einhver skyldi leggja á sig að skrifa bláókunnugum manni til að hjálpa honum á erfiðum tímum. Ég hlýt að álykta að þú elskir náungann og þann Guð sem leiðir fólk á lífsleiðinni.“

20. Hve mikilvægt er að kennari sé kærleiksríkur?

20 Sagt hefur verið að þegar kærleikur og færni haldist í hendur verði útkoman hrein snilld. Þegar við kennum reynum við að hjálpa nemendum okkar að þekkja Jehóva og elska hann. Til að vera dugmiklir kennarar þurfum við að elska þrennt — Guð, sannleikann og náungann. Þegar við tileinkum okkur þennan kærleika og sýnum hann í boðun okkar og kennslu uppskerum við bæði gleðina af því að gefa og vissuna um að við líkjum eftir Jesú og þóknumst Jehóva.

Hvert er svarið?

• Þegar við kennum öðrum fagnaðarerindið, af hverju er mikilvægt að . . .

elska Guð?

elska sannleikann sem við kennum?

elska þá sem við kennum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hvers vegna kenndi Jesús öðruvísi en fræðimenn og farísear?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Góður kennari þarf að búa yfir þekkingu, færni og umfram allt kærleika.