Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – á Taívan

Þau buðu sig fúslega fram – á Taívan

HJÓNIN Choong Keon og Julie, sem eru á miðjum fertugsaldri, voru brautryðjendur í Sydney í Ástralíu þar til fyrir fimm árum. „Við unnum hlutastarf og höfðum það frekar gott,“ segir Choong Keon. „Veðrið var gott þar sem við bjuggum og lífið notalegt. Við nutum þess að vera nálægt ættingjum og vinum.“ En Choong Keon og Julie voru samt ekki sátt við tilveruna. Hvers vegna? Þau vissu að þau gátu gert meira í þjónustunni við Jehóva en hikuðu við að gera nauðsynlegar breytingar.

Á móti, sem þau sóttu árið 2009, var flutt ræða sem hafði mikil áhrif á þau. Ræðumaðurinn beindi máli sínu til þeirra sem voru í aðstöðu til að gera meira í þjónustu Jehóva. Hann sagði: „Hugsum okkur bílstjóra. Hann getur stýrt bílnum til hægri eða vinstri en aðeins ef hann er á ferð. Jesús getur líka bent okkur á leiðir til að gera meira en bara ef við erum á ferð – ef við leggjum okkur fram um að ná markmiði okkar.“ * Hjónunum fannst bróðirinn tala beint til sín. Á þessu móti var líka tekið viðtal við trúboðahjón sem störfuðu á Taívan. Þau töluðu um ánægjuna sem þau höfðu af boðuninni og bentu á að enn væri mikil þörf á fleiri boðberum. Choong Keon og Julie fannst aftur eins og verið væri að tala til sín.

„Eftir þetta mót báðum við Jehóva um að gefa okkur kjark til að láta slag standa og flytja til Taívans,“ segir Julie og bætir við: „En við vorum hrædd. Okkur leið eins og við værum að stökkva út í djúpu laugina í fyrsta sinn.“ Prédikarinn 11:4 hjálpaði þeim að „stökkva“ en þar segir: „Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki.“ Choong Keon segir: „Við ákváðum að hætta að ,gá og horfa‘ og byrja í staðinn að ,sá og uppskera‘.“ Þau báðu til Jehóva, og báðu meira, lásu ævisögur trúboða, skrifuðust á við marga sem höfðu þegar flust til Taívans, seldu húsgögnin og bílana og voru komin til Taívans þrem mánuðum síðar.

HÚN KYNNTIST GLEÐINNI SEM FYLGIR ÞVÍ AÐ BOÐA TRÚNA

Rúmlega 100 bræður og systur hafa flust til Taívans og starfa núna á svæðum þar sem þörfin á boðberum er mikil. Þau eru frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Japan, Kanada, Kóreu og Spáni og eru á aldrinum 21 til 73 ára. Meðal þeirra eru meira en 50 einhleypar systur. Hvað hefur hjálpað þessum ötulu bræðrum og systrum að þjóna Jehóva í nýju landi? Skoðum málið.

Laura

Laura, einhleyp systir frá Kanada, er brautryðjandi á vesturhluta Taívans. Það eru ekki nema um tíu ár síðan hún fór að njóta þess að boða fagnaðarerindið. Hún segir: „Ég fór nógu lítið í starfið til að hafa ekki ánægju af því.“ Þá gerðist það að vinafólk í Kanada spurði hana hvort hún vildi koma með þeim til Mexíkó í mánuð til að boða fagnaðarerindið. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór í starfið að einhverju marki og mér til mikillar undrunar var það mjög skemmtilegt.“

Eftir þessa ánægjulegu reynslu fór Laura að velta fyrir sér hvort hún gæti flutt í söfnuð sem talaði erlent tungumál. Hún skráði sig á kínverskunámskeið, starfaði með kínverskum hópi í Kanada og setti sér það markmið að flytja til Taívans. Og þangað flutti hún í september 2008. „Það tók svona ár að aðlagast nýja umhverfinu, en núna get ég ekki hugsað mér að fara aftur til Kanada,“ segir Laura. Hvað finnst henni um að boða trúna á Taívan? „Það er yndislegt,“ segir hún. „Það er ekkert ánægjulegra en að fylgjast með biblíunemendum breyta lífi sínu þegar þeir kynnast Jehóva. Ég hef fengið að upplifa þessa miklu gleði mörgum sinnum eftir að ég fór að starfa á Taívan.“

GLÍMAN VIÐ TUNGUMÁLIÐ

Brian og Michelle

Brian og Michelle eru bandarísk hjón á miðjum fertugsaldri. Þegar þau fluttu til Taívans fyrir um átta árum fannst þeim þau ekki geta gert mikið gagn í boðuninni. En reyndur trúboði sagði við þau: „Þó að þið getið ekki gert annað en að gefa einhverjum smárit skuluð þið hafa í huga að það er líklega í allra fyrsta sinn sem hann fær að heyra um Jehóva. Þið eigið því mikilvægan þátt í að boða trúna.“ Þessi hvetjandi orð voru mjög uppörvandi fyrir Brian og Michelle. Annar bróðir sagði við þau: „Til að missa ekki móðinn skuluð þið ekki meta framfarir ykkar í kínversku frá degi til dags heldur frá móti til móts.“ Með tímanum náðu þau góðum tökum á málinu og þeim vegnar vel í starfi sínu sem brautryðjendur.

Hvað getur hvatt þig til að ráðast í það að læra erlent tungumál? Prófaðu að fara til landsins þar sem þig langar til að starfa. Farðu á samkomur, reyndu að kynnast bræðrum og systrum og vertu með þeim í boðunarstarfinu. Brian segir: „Þegar maður sér hve margir taka vel á móti fagnaðarerindinu og finnur fyrir hlýju og kærleika trúsystkina langar mann til að taka þeirri áskorun að flytja til annars lands.“

HVERNIG SJÁ ÞAU FYRIR SÉR?

Kristin og Michelle

Margir sem hafa flust til Taívans til að hjálpa til við boðunina hafa getað séð fyrir sér með því að kenna ensku. Kristin og Michelle selja fiskmeti. Kristin segir: „Ég hafði aldrei gert það áður en þessi vinna hefur gert okkur kleift að búa áfram í landinu.“ Með tímanum fékk Kristin nokkra fasta viðskiptavini. Þau sjá fyrir sér með þessu hlutastarfi og hafa þá nægan tíma aflögu fyrir mikilvægasta verkefnið, að vera brautryðjendur og veiða menn.

„NJÓTTU FERÐARINNAR“

Hjónin William og Jennifer frá Bandaríkjunum komu til Taívans fyrir sjö árum. „Það hefur stundum verið þrautin þyngri að læra tungumálið, vera brautryðjendur, annast söfnuðinn og sjá okkur farborða,“ segir William. Hvernig hefur þeim tekist að halda áfram og varðveita gleðina? Þau reyna að setja sér raunhæf markmið. Þau gerðu sér til dæmis ekki of miklar væntingar þegar þau voru að læra kínversku svo að þau myndu ekki missa kjarkinn þegar framfarirnar væru hægar.

William og Jennifer

William minnist þess sem farandumsjónarmaður sagði eitt sinn við hann: „Njóttu ferðarinnar, ekki bara þess að komast á leiðarenda.“ Þegar maður hefur sett sér markmið í þjónustu Guðs ætti maður með öðrum orðum að njóta þess að vinna að þeim. William segir að þessi ráð hafi hjálpað þeim hjónunum að vera sveigjanleg, hlusta á ráð frá ábyrgum bræðrum í söfnuðinum og tileinka sér aðferðir heimamanna til að ná árangri í boðuninni í nýja landinu. Hann bætir við: „Þetta minnti okkur líka á að gefa okkur tíma til að njóta náttúrufegurðarinnar á eynni.“

Megan, einhleyp brautryðjandasystir frá Bandaríkjunum, hefur gert eins og William og Jennifer. Hún ,nýtur ferðarinnar‘ meðan hún reynir að ná því markmiði að tala kínversku betur. Um helgar fer hún með hópi boðbera sem boða trúna á stórskemmtilegu svæði – Kaohsiung-höfninni sem er stærsta höfnin á Taívan. Megan hefur boðað fagnaðarerindið skip úr skipi fyrir sjómönnum frá Bangladess, Filippseyjum, Indlandi, Indónesíu, Taílandi og Vanúatú. „Þar sem sjómenn eru aðeins stuttan tíma í höfn byrjum við að kenna þeim strax. Til að ná til sem flestra er ég oft með fjóra, fimm biblíunemendur saman.“ Og hvernig gengur henni að læra kínversku? Hún segir: „Ég vildi að ég væri fljótari að læra en ég minni mig á það sem bróðir sagði mér einu sinni: ,Gerðu þitt besta og láttu Jehóva um framhaldið.‘“

Megan

ÖRUGGT, EINFALT OG SPENNANDI

Áður en Cathy frá Bretlandi flutti til Taívans kannaði hún vel hvar myndi vera öruggt fyrir einhleypa systur að búa. Hún ræddi málið við Jehóva í bæn og skrifaði nokkrum deildarskrifstofum til að spyrjast fyrir hvaða hættur gætu steðjað að henni sem einhleypri systur. Síðan skoðaði hún vandlega svörin sem hún fékk og niðurstaðan var að Taívan væri góður kostur.

Cathy flutti til Taívans árið 2004, þá 31 árs. Hún reynir að lifa sem einföldustu lífi og segir: „Ég spurði trúsystkini hvar ódýrast væri að kaupa ávexti og grænmeti. Það hjálpaði mér að láta spariféð endast lengur.“ Hvernig tekst Cathy að lifa einföldu lífi? Hún segir: „Ég bið Jehóva oft um að hjálpa mér að vera ánægð með einfalt mataræði og látlaus föt. Mér finnst Jehóva svara bænum mínum með því að sýna mér hverjar þarfir mínar eru og hjálpa mér að vera ánægð þótt ég hafi ekki allt sem mig langar í.“ Hún bætir við: „Ég nýt þess að lifa einföldu lífi því að þannig get ég einbeitt mér að andlegu málunum.“

Cathy

En líf Cathyjar er ekki bara einfalt heldur líka spennandi. Hún útskýrir hvers vegna: „Ég get starfað á svæði þar sem margir taka við fagnaðarerindinu. Það er mjög ánægjulegt.“ Þegar hún kom til Taívans voru tveir kínverskir söfnuðir í borginni þar sem hún byrjaði að starfa sem brautryðjandi, en núna eru þeir orðnir sjö. Cathy segir: „Að sjá þennan gríðarlega vöxt með eigin augum og taka þátt í uppskerunni gerir daglega lífið ótrúlega spennandi.“

„ÞEIR ÞURFTU JAFNVEL Á MÉR AÐ HALDA“

Hvernig hefur gengið hjá Choong Keon og Julie sem sagt er frá í byrjun greinarinnar? Choong Keon fannst í fyrstu að hann kæmi að litlum notum í söfnuðinum þar sem hann talaði svo takmarkaða kínversku. En heimamenn í söfnuðinum voru ekki sammála honum. „Þegar söfnuðinum var skipt fékk ég mörg ný verkefni sem safnaðarþjónn,“ segir Choong Keon. „Þá fann ég virkilega fyrir því að ég starfaði á svæði þar sem þörfin var mikil. Það var frábært að finna að þeir þurftu jafnvel á mér að halda,“ segir hann með brosi á vör. Núna er hann orðinn öldungur. Julie segir: „Okkur finnst við hafa áorkað einhverju. Við höfum aldrei verið eins lífsglöð og ánægð. Við komum hingað til að hjálpa til en okkur finnst þessi frábæra reynsla hafa hjálpað okkur. Við þökkum Jehóva fyrir að leyfa okkur að starfa hér.“

Í mörgum löndum er enn þá mikil þörf á fleiri verkamönnum við andlegu uppskeruna. Ertu að ljúka skólagöngu og veltir fyrir þér hvað þú eigir að gera í framhaldinu? Ertu einhleypur og langar til að gera meira gagn í söfnuði Jehóva? Viltu gefa fjölskyldunni gott veganesti í þjónustunni við Jehóva? Ertu kominn á eftirlaun og getur látið aðra njóta góðs af verðmætri reynslu þinni? Ef þú ákveður að færa út kvíarnar með því að starfa þar sem þörfin á boðberum er mikil máttu vera viss um að Jehóva blessar þig ríkulega.

^ Sjá bókina „Bearing Thorough Witness“ About God’s Kingdom, 16. kafla, greinar 5-6.