Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Smiðurinn“

„Smiðurinn“

Frumkristnir menn og samtíð þeirra

„Smiðurinn“

„Er þetta ekki sonur smiðsins?“ — MATTEUS 13:55.

JESÚS var oft kallaður „sonur smiðsins“ en einnig „smiðurinn“. (Markús 6:3) Líklega lærði hann trésmíði af Jósef, fósturföður sínum.

Hvers konar kunnáttu þurfti Jesús að afla sér til að verða smiður og hvers konar verkfæri lærði hann að nota? Hvernig hluti ætli hann hafi smíðað fyrir íbúa Nasaret og hvers konar þjónustu ætli hann hafi veitt þeim? Og hvaða áhrif ætli menntun hans og störf sem trésmiður hafi haft á hann sem kennara síðar meir?

Fjölskylduiðn. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvar faðir leiðbeinir elsta syni sínum við að nota bor á skilvirkan og öruggan hátt. Yngri bróðir hans hlustar á og fylgist grannt með þeim.

Drengir hófu iðnnámið af alvöru við 12 til 15 ára aldur. Yfirleitt lærðu þeir iðnina af föður sínum. Það tók oftast mörg ár að ná færni og drengirnir þurftu að leggja sig alla fram ef þeir vildu öðlast nægilega fagkunnáttu til að verða góðir smiðir. Þær hafa eflaust verið ófáar ánægjustundirnar sem Jósef átti með Jesú þegar hann vann með honum, spjallaði við hann og miðlaði honum af kunnáttu sinni og reynslu. Jósef hlýtur að hafa verið mjög stoltur af Jesú þegar hann náði smám saman tökum á trésmíðinni.

Þekking, styrkur og kunnátta. Smiður þurfti að þekkja inn á eiginleika viðarins sem hann var með í höndunum. Hann gat valið úr ýmsum trjátegundum eins og kýprusviði, eik, sedrusviði, mórberjaviði og olíuviði. En smiður á fyrstu öldinni gat ekki skroppið í næstu timbur- eða byggingarvöruverslun og náð í smíðatimbur sem sagað hafði verið eftir máli. Hann þurfti að fara út í skóg, velja réttu trén, fella þau og draga síðan þunga trjábolina heim á verkstæðið.

Hvað gat smiður búið til úr viðnum sem hann hafði sótt? Hann vann ef til vill tímunum saman undir beru lofti við húsasmíði. Hann þurfti að höggva til þaksperrur, smíða stiga og setja upp innanhúss og smíða hurðir, gluggakarma og burðargrindur í veggi.

Smiður smíðaði einnig húsgögn. Á myndinni hægra megin má sjá sumt af því sem hann bjó til eins og skápa með skúffum, hillum eða hurðum (1), fótaskammel (2), stóla (3) og borð (4) af ýmsum stærðum og gerðum, og auk þess vöggur eða barnarúm. Stundum greypti hann fallegt mynstur í húsgögnin til skrauts. Síðan bar hann bývax, fernisolíu eða aðra olíu á viðinn til að hlífa honum og fegra hann.

Trésmiður smíðaði einnig hluti handa bændum eins og ok (5) úr harðviði og líka heykvíslar, hrífur og skóflur (6). Ef hann smíðaði plóg (7) þurfti að gera hann sterkan því að járntönnin þurfti að rista far í grýttan jarðveginn. Hann smíðaði einnig kerrur (8) og vagna og undir þau setti hann hjól sem voru annaðhvort heilir hlemmar eða með spölum. Starf hans fólst líka í því að viðhalda og gera við húsgögn, verkfæri og vagna sem hann hafði búið til.

Ímyndaðu þér eitt augnablik hvernig Jesús hefur verið útlits. Sjáðu hann fyrir þér brúnan á hörund undir heitri sólinni. Hann er vöðvastæltur eftir margra ára erfiðisvinnu og með sigggrónar hendur af því að meðhöndla grófan smíðavið og handleika axir, hamra og sagir.

Efniviður í líkingar. Jesús var snillingur að nota einfalda og kunnuglega hluti til að kenna mikilvæg trúarleg sannindi. Sótti hann þessar líkingar að einhverju leyti í reynslu sína af trésmíði? Það má vel vera samanber eftirfarandi dæmi: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ sagði hann einu sinni við mannfjöldann. Smiður vissi vel að bjálkar voru stórir og sverir. (Matteus 7:3) Við annað tækifæri sagði Jesús: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ Eflaust hafði hann líka smíðað margan plóginn. (Lúkas 9:62) Eitt hlýlegasta boð Jesú byggðist á líkingu af áhaldi sem smiðir bjuggu til. Hann sagði: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér“ og bætti svo við: „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:29, 30) Jesús kunni eflaust að smíða ok sem var „ljúft“, það er að segja féll vel að líkamanum og meiddi ekki.

Andstæðingar Jesú ætluðu kannski að gera lítið úr honum með því að kalla hann ,son smiðsins‘. Kristnir menn á fyrstu öldinni töldu það engu að síður mikinn heiður að fylgja Jesú, þessum óbreytta smið, og hið sama er að segja um fylgjendur hans nú á dögum.

[Rammi/​myndir á bls. 18]

Verkfærakista smiðsins

Fyrstu aldar smiður eins og Jesús þurfti að kunna að fara með verkfærin sem sýnd eru á myndinni. Sögin (1) var gerð úr trégrind með tenntu járnblaði og henni var snúið þannig að hún skar þegar smiðurinn dró hana að sér. Hann notaði vinkil (2) til að mæla rétt horn og lóðlínu (3) til að mæla lóðréttar línur. Í verkfærakistunni mátti einnig finna hallamál (4), mælistiku (5), hefil með beittu, stillanlegu blaði til að hefla viðinn (6) og öxi (7) til að fella tré.

Rennibekkur (8) og rennijárn (9) voru notuð til að móta og renna pílára. Á loki verkfærakistunnar stendur tréhamar (10) sem notaður var til að reka blindnagla í samskeyti eða til að slá á sporjárn. Þar má einnig sjá litla handsög (11), girðishníf (12) til að tálga með og nokkra nagla (13). Fyrir framan kistuna er járnhamar (14) og skaröxi (15) til að höggva til timbur. Á lokinu liggja hnífur (16) og sporjárn (17) af ýmsum stærðum. Við endann á kistunni stendur bor (18) sem snúið var með boga og streng.