Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Áskoranir sem fylgja því að verða foreldri

Áskoranir sem fylgja því að verða foreldri

Kjartan: * „Við María vorum svo ánægð þegar dóttir okkar kom í heiminn. En ég missti mikinn svefn fyrstu mánuðina eftir að hún fæddist. Við hjónin höfðum haft ýmis áform um það hvernig við ætluðum að hafa hlutina en þau urðu fljótt að engu.“

María: „Við fæðingu barns okkar varð líf mitt ekki lengur mitt eigið. Allt í einu snerist allt um næstu bleyjuskipti, næsta pela eða næstu tilraun til að róa barnið. Aðlögunarferlið var erfitt. Það liðu margir mánuðir áður en samband okkar Kjartans varð aftur eðlilegt.“

MARGIR eru því sammála að barneignir séu með því ánægjulegasta sem lífið hefur upp á að bjóða. Í Biblíunni er börnum lýst sem „gjöf frá Drottni“. (Sálmur 127:3) Nýir foreldrar eins og Kjartan og María vita líka að börn geta breytt hjónabandinu á óvæntan hátt. Það getur komið nýrri móður á óvart hvernig líkami hennar og hjarta bregðast við minnsta snökti frá barninu. Faðirinn dáist sennilega að þeim böndum sem myndast milli barnsins og eiginkonu hans en á sama tíma hefur hann kannski áhyggjur af því að vera allt í einu skilinn út undan.

Fæðing fyrsta barns getur í raun orðið kveikjan að deilum innan hjónabandsins. Álagið sem fylgir þessu nýja hlutverki getur orðið til þess að tilfinningalegt óöryggi og óleyst mál milli hjóna geta allt í einu sprottið upp á yfirborðið og orðið erfiðari viðfangs.

Hvernig geta nýbakaðir foreldrar aðlagað sig að þeim erilsama tíma sem fyrstu mánuðirnir eftir barnsburð eru, tímanum þegar barnið þarfnast allrar athygli þeirra? Hvað geta hjón gert til að viðhalda nánu sambandi sín á milli? Hvernig geta þau leyst úr ágreiningi um uppeldisaðferðir? Við skulum skoða nánar þessar áskoranir og sjá hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað hjónum að sigrast á þeim.

ÁSKORUN: Lífið snýst skyndilega eingöngu um barnið.

Mestallur tími nýorðinnar móður fer í það að sinna barninu og það getur verið að umönnun barnsins uppfylli að mestu tilfinningalegar þarfir hennar. En á sama tíma getur verið að eiginmanni hennar finnist hann vanræktur. Manuel, sem býr í Brasilíu, segir: „Sú breyting að athygli eiginkonu minnar beindist ekki lengur að mér heldur barninu fannst mér erfiðust. Áður fyrr voru það bara við tvö en svo var það skyndilega bara hún og barnið.“ Hvernig geturðu brugðist við slíkum umskiptum?

Lykill að árangri: Verið þolinmóð.

„Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður,“ segir í Biblíunni. Kærleikurinn „leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki“. (1. Korintubréf 13:4, 5) Hvernig geta nýir foreldrar, bæði feður og mæður, nýtt sér þessi ráð?

Vitur eiginmaður sýnir ást sína á eiginkonunni með því að afla sér þekkingar á þeim líkamlegu og andlegu áhrifum sem barnsburður hefur á konu. Ef hann gerir það skilur hann hvers vegna skap hennar getur breyst fyrirvaralaust. * Adam, sem býr í Frakklandi og á 11 mánaða gamla stúlku, viðurkennir: „Það er stundum erfitt að eiga við skapbrigði eiginkonu minnar. En ég reyni að muna að ergelsi hennar er ekki beint að mér persónulega heldur eru þetta viðbrögð við álaginu sem fylgir nýju hlutverki.“

Misskilur eiginkonan stundum tilraunir þínar til að aðstoða hana? Ekki reiðast ef hún gerir það. (Prédikarinn 7:9) Sýndu heldur þolinmæði og láttu hagsmuni hennar hafa forgang. Þá eru minni líkur á að þú komist í uppnám. — Orðskviðirnir 14:29.

Á hinn bóginn reynir vitur móðir að hvetja eiginmann sinn áfram í nýju hlutverki. Hún leyfir honum að taka þátt í umönnun barnsins. Jafnvel þó hann virðist klaufalegur til að byrja með sýnir hún honum þolinmóð hvernig á að skipta um bleyju eða undirbúa pela.

Ellen, sem er 26 ára móðir, gerði sér grein fyrir að hún þurfti að gera breytingar á því hvernig hún kom fram við eiginmann sinn. Hún sagði: „Ég var of eigingjörn á barnið okkar og þurfti að minna mig á að vera ekki of smámunasöm þegar eiginmaður minn reyndi að fara eftir leiðbeiningum mínum varðandi umönnun barnsins.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Reyndu að halda aftur af löngun þinni til að gangrýna manninn þinn þótt aðferðir hans við umönnun barnsins séu frábrugðnar þínum. Hrósaðu honum frekar fyrir það sem hann gerir vel en að vinna verkið upp á nýtt. Þannig byggirðu upp sjálfstraust hans og hvetur hann til að halda áfram að veita þér stuðning. Og þið eiginmenn, takmarkið tímann sem þið notið í lítilvæga hluti svo að þið hafið sem mestan tíma til að aðstoða eiginkonu ykkar, sérstaklega fyrstu mánuðina eftir að barnið kemur í heiminn.

ÁSKORUN: Þið hjónin fjarlægist hvort annað.

Nýbakaðir foreldrar fá oft lítinn svefn og margt óvænt kemur upp á. Þá getur verið erfitt að viðhalda nánu sambandi sín á milli. Vivianne, sem er frönsk og móðir tveggja ungbarna, viðurkennir: „Til að byrja með var ég svo upptekin af því að vera móðir að ég gleymdi næstum hlutverki mínu sem eiginkona.“

Á hinn bóginn gera sumir eiginmenn sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif meðgangan hefur haft á eiginkonuna, bæði líkamlega og tilfinningalega. Nú hafið þið líklega minni tíma og krafta til að styrkja tilfinningaböndin og sinna kynferðislegum þörfum hvort annars. Hvernig geta hjón þá komið í veg fyrir að litla, elskulega barnið þeirra verði til þess að þau fjarlægist hvort annað?

Lykill að árangri: Staðfestið ást ykkar hvort til annars.

Biblían lýsir hjónabandi svona: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ * (1. Mósebók 2:24, Biblían 1981) Það hefur alltaf verið ætlun Jehóva Guðs að á endanum fari börnin frá foreldrum sínum. Hins vegar ætlast Guð til að hjónin séu saman alla ævi. (Matteus 19:3-9) Hvernig getur þessi staðreynd hjálpað nýjum foreldrum að forgangsraða rétt?

Vivianne, sem vitnað var í áðan, segir: „Orðin í 1. Mósebók 2:24 hjálpuðu mér að átta mig á því að ég er ,eitt hold‘ með eiginmanni mínum — ekki barninu okkar. Ég sá að það var þörf á að styrkja hjónabandið.“ Telma, móðir tveggja ára stúlku, segir: „Ef mér finnst ég vera að fjarlægast eiginmann minn þá bregst ég strax við með því að sýna honum fulla athygli, þó ekki sé nema stutta stund hvern dag.“

Ef þú ert eiginmaður hvað geturðu þá gert til þess að styrkja hjónabandið? Segðu konunni þinni að þú elskir hana og sýndu það svo með kærleiksríkum verkum. Ef hún finnur til öryggisleysis taktu þá meðvitaða ákvörðun um að byggja upp öryggiskennd hennar. Sara, sem er ung móðir, segir: „Eiginkona þarf að vita að hún sé enn elskuð og mikils metin, jafnvel þótt líkami hennar sé ekki eins og hann var fyrir meðgönguna.“ Allan, sem býr í Þýskalandi og er faðir tveggja drengja, skilur að hann þarf að veita eiginkonunni tilfinningalegan stuðning. Hann segir: „Ég hef alltaf reynt að vera til staðar fyrir konuna mína þegar hún þarf á hughreystingu að halda.“

Skiljanlega hefur það að eignast barn truflandi áhrif á kynlíf hjóna. Þau þurfa því að ræða þarfir hvort annars. Biblían segir að breytingar á kynlífi hjóna ættu að vera eftir „samkomulagi“. (1. Korintubréf 7:1-5) Þá er þörf á tjáskiptum. Menningarlegur og uppeldislegur bakgrunnur þinn getur haft áhrif á hversu opinskátt þú ræðir um kynlíf við maka þinn en slíkar umræður eru nauðsynlegar þegar hjón eru að aðlagast nýju hlutverki sem foreldrar. Verið skilningsrík, þolinmóð og hreinskilin. (1. Korintubréf 10:24) Þannig komið þið hjónin í veg fyrir misskilning og ást ykkar mun styrkjast. — 1. Pétursbréf 3:7, 8.

Hjón geta sýnt ást sína hvort til annars með því að tjá þakklæti sitt. Vitur eiginmaður gerir sér grein fyrir því að mörg þeirra verka, sem nýbökuð móðir vinnur, eru ekki alltaf sýnileg. Vivianne segir: „Þegar dagur er að kveldi kominn finnst mér oft eins og ég hafi ekki áorkað neinu — jafnvel þó ég hafi verið upptekið við umönnun barnsins allan daginn!“ Þótt hún hafi verið upptekin gerir vitur eiginkona ekki lítið úr framlagi eiginmannsins til fjölskyldunnar. — Orðskviðirnir 17:17.

PRÓFIÐ ÞETTA: Þú sem ert móðir gætir lagt þig meðan barnið sefur ef þú hefur tök á því. Þannig geturðu „hlaðið rafhlöðurnar“ og þá hefurðu meiri orku til að sinna hjónabandinu. Þú sem ert faðir gætir reynt eftir fremsta megni að vakna á næturnar ef skipta þarf á barninu eða gefa því að drekka svo að eiginkonan geti hvílst. Sýndu konunni að þú elskir hana með því skilja eftir litla miða handa henni, senda textaskilaboð eða hringja í hana. Gefið ykkur tíma til þess að tala saman í einrúmi. Talið um hvort annað, ekki bara barnið. Ef þið viðhaldið sterkri vináttu eru þið betur undir það búin að takast á við áskoranir foreldrahlutverksins.

ÁSKORUN: Þið eruð ósammála um uppeldisaðferðir.

Það má vera að bakgrunnur hjóna geti valdið deilum í barnauppeldinu. Japönsk móðir að nafni Asami og eiginmaður hennar, Katsuro, stóðu frammi fyrir því. Asami sagði: „Mér fannst Katsuro vera of eftirlátur við dóttur okkar en hins vegar fannst honum ég vera of ströng.“ Hvernig getið þið forðast að vinna gegn hvort öðru?

Lykill að árangri: Talið saman og styðjið hvort annað.

Hinn vitri Salómon konungur skrifaði: „Af hroka kvikna deilur en hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ (Orðskviðirnir 13:10) Hversu mikið veistu um skoðanir maka þíns á barnauppeldi? Ef þið bíðið með að ræða uppeldisaðferðir þar til barnið er fætt gæti svo farið að þið vinnið á móti hvort öðru í stað þess að leysa málin farsællega.

Hvaða svör við eftirfarandi spurningum eru þið til dæmis sammála um: Hvernig getum við kennt barninu okkar góðar svefn- og matarvenjur? Ætlum við alltaf að taka barnið upp ef það grætur þegar það á að fara að sofa? Hvernig er best að venja barnið á að nota kopp? Ákvarðanir ykkar eru ekki endilega þær sömu og annarra hjóna. Emil, faðir tveggja barna, segir: „Foreldrar verða að tala saman svo að þeir séu á sömu bylgjulengd, þá geta þeir í sameiningu mætt þörfum barnsins.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Rifjaðu upp hvernig foreldrar þínir ólu þig upp. Ákveddu síðan hvaða aðferðum og viðhorfum þeirra þú vilt líkja eftir við uppeldi barna þinna. Hafðu líka í huga hvort það sé eitthvað sem þú vilt forðast að endurtaki sig. Ræddu síðan niðurstöður þínar við makann.

Börn geta haft góð áhrif á hjónaband

Nýbakaðir foreldrar eru eins og óreyndir skautadansarar sem eru að reyna að ná jafnvægi á svellinu. Það tekur bæði tíma og þolinmæði að ná árangri. En með tímanum öðlist þið meira sjálfstraust.

Barnauppeldi mun hafa varanleg áhrif á samband ykkar hjónanna og verða prófsteinn á hjónabandið. En það gefur þér líka tækifæri til að rækta með þér verðmæta eiginleika. Ef þú tileinkar þér viturleg ráð Biblíunnar mun reynsla þín verða áþekk reynslu Kristjáns. Hann segir: „Barnauppeldið hefur haft góð áhrif á okkur hjónin. Nú erum við skilningsríkari og ástúðlegri og við erum heldur ekki jafn upptekinn af sjálfum okkur.“ Slíkar breytingar eru hjónabandinu svo sannarlega til góðs.

^ gr. 3 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ gr. 11 Margar mæður glíma við væg þunglyndiseinkenni fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Sumar upplifa þó alvarlegri einkenni sem kallast fæðingarþunglyndi. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að greina og takast á við fæðingarþunglyndi er að finna í greininni „Þunglyndi eftir fæðingu“ í Vaknið! október-desember 2003 og í greininni „I Won My Battle With Postpartum Depression“ í Vaknið! 22. júlí 2002 sem einnig er hægt að lesa á vefsíðunni www.mr1310.com.

^ gr. 19 Samkvæmt fræðiriti einu ber hebreska sögnin, sem þýdd er „býr“ í 1. Mósebók 2:24, með sér þá hugmynd ,að ríghalda í einhvern af ástúð og tryggð‘.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvað gerði ég í síðustu viku til að sýna maka mínum að ég kunni að meta það sem hann gerir fyrir fjölskylduna?

  • Hvenær gaf ég mér síðast tíma til að eiga einlægt samtal við maka minn án þess að það snerist einungis um barnauppeldið?