Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver getur þýtt spádóma?

Hver getur þýtt spádóma?

Hver getur þýtt spádóma?

Gordíonshnúturinn var talinn vera hin erfiðasta þraut manna á dögum Alexanders mikla. Vitur væri sá maður og mikill yrði sigur hans sem tækist að leysa þann flókna hnút. * Sagan segir að Alexander hafi leyst þrautina með því að höggva á hnútinn með sverði sínu.

Í TÍMANNA rás hafa vitrir menn ekki bara reynt að leysa rembihnúta heldur einnig að ráða fram úr gátum, þýða spádóma og jafnvel segja framtíðina fyrir.

Oftar en ekki hafa hæfileikar þeirra þó ekki dugað til. Vitringarnir í Babýlon gátu til dæmis ekki ráðið fram úr áletruninni sem birtist fyrir kraftaverk á vegg í höll Belsasars á meðan hann hélt mikla svallveislu. Daníel, aldraður spámaður Jehóva Guðs, hafði á sér orð fyrir að kunna að höggva á hnúta eða „greiða úr vandamálum“ og að lokum reyndist hann sá eini sem gat túlkað spádómsboðskapinn. (Daníel 5:12) Hann sagði fyrir endalok heimsveldisins Babýlonar og spádómurinn rættist þessa sömu nótt. – Daníel 5:1, 4-8, 25-30.

Hvað er spádómur?

Orðið spádómur felur í sér þá hugsun að segja framtíðina fyrir eða að skrá atburði áður en þeir gerast. Sannir spádómar eru innblásinn boðskapur í orði eða riti, opinberun um vilja Guðs og tilgang. Í Biblíunni er að finna spádóma um komu Messíasar og það sem myndi einkenna hann, um endalok veraldar og um ýmsa dóma Guðs. – Matteus 24:3; Daníel 9:25.

„Vitringar“ okkar tíma, fræðingar á sviði vísinda, fjármála, heilbrigðismála, stjórnmála, umhverfismála og á fleiri sviðum, reyna að segja framtíðina fyrir. Þótt slíkum spám sé víða hampað í fjölmiðlum og almenningur sýni þeim mikinn áhuga, eru þær í besta lagi mat fróðra manna og persónulegar skoðanir þeirra. Og í hvert skipti sem einhver lætur álit sitt í ljós koma aðrir fram sem andmæla því og koma með mótrök. Það er mjög varhugavert að reyna að segja framtíðina fyrir.

Uppruni sannra spádóma

Hvaðan koma þá sannir spádómar og hver getur túlkað þá? Pétur postuli skrifaði: „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.“ (2. Pét. 1:20) Í gríska frumtextanum merkir orðið „þýðir“ í þessu versi að „leysa“ eða „afhjúpa“ og hugmyndin er sú að það sem er leyst eða losað var áður bundið. Í The Amplified New Testament er talað um að „leysa“ spádóm í þessu versi.

Ímyndaðu þér sjómann sem hnýtir flókinn hnút lipurlega. Þegar aðrir skoða hnútinn geta þeir séð hvernig reipið vefst saman en þeir vita ekki hvernig á að leysa hann. Með svipuðum hætti getur fólk tekið eftir tilhneigingum í samfélaginu, sem virðast stefna málum í óefni, en getur samt ekki vitað hvernig framtíðin mun líta út og hvernig allt mun enda.

Spámenn Guðs til forna, eins og Daníel, rannsökuðu ekki atburði líðandi stundar til að reyna að sjá hver þróun mála yrði og geta borið fram spádóma. Ef þeir hefðu gert það og jafnvel reynt að hafa áhrif á þróun mála hefðu spádómarnir sprottið af þeirra eigin hugmyndum og hefðu þá átt rætur sínar að rekja til ófullkominna manna. Pétur útskýrði hins vegar: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ – 2. Pétursbréf 1:21.

Það er Guðs að þýða spádóma

Fyrir um 3700 árum sátu tveir menn í fangelsi í Egyptalandi. Hvorn um sig dreymdi athyglisverðan draum. Þar sem þeir höfðu engan aðgang að vitringum landsins voru þeir ráðþrota og lýstu því draumunum fyrir Jósef, samfanga sínum, og sögðu: „Okkur hefur dreymt draum og hér er enginn sem getur ráðið hann.“ Þessi þjónn Guðs bað þá um að segja frá draumunum en sagði einnig: „Er það ekki Guðs að ráða drauma?“ (1. Mósebók 40:8) Það er bara Jehóva Guð sem getur opinberað eða ráðið þýðingu spádóma eins og fær sjómaður getur leyst flókna hnúta. Það var Guð sem „batt hnútana“ eða setti fram spádómana. Það er því eðlilegt að við leitum til hans til að „leysa“ þá eða fá skilning á þeim. Já, Jósef gaf Guði réttilega heiðurinn.

Hvernig þýðir Guð þá spádóma? Hann gerir það eftir nokkrum mismunandi leiðum. Sumum spádómum Biblíunnar fylgja skýringar á uppfyllingu þeirra. Það er því tiltölulega auðvelt að „leysa“ eða skýra þá eins og suma hnúta sem sjómaðurinn myndi fúslega kenna öðrum að leysa. – 1. Mósebók 18:14; 21:2.

Aðrir spádómar skýrast þegar maður skoðar samhengið. Spámaðurinn Daníel sá í sýn ,tvíhyrndan hrút‘. Einnig var þar „geithafur“ sem hafði „horn mikið milli augna“ og hann réðst á hrútinn af miklum ofsa. Af samhenginu má sjá að tvíhyrndi hrúturinn táknaði „konungana í Medíu og Persíu“ og geithafurinn „konung Grikklands“. (Daníel 8:3-8, 20-22, neðanmáls) Rúmlega 200 árum síðar hófst „stóra hornið“, Alexander mikli, handa við að leggja undir sig Persíu. Sagnaritarinn Jósefus heldur því fram að þegar Alexander hernam svæðin kringum Jerúsalem hafi einhver sýnt honum þennan spádóm og hann hafi trúað því að spádómurinn myndi rætast á sér.

Guð þýðir einnig spádóma með öðrum hætti. Jósef, trúfastur þjónn Jehóva Guðs, fékk hjálp heilags anda til að ráða fram úr draumunum sem ráðalausir samfangar hans lýstu fyrir honum. (1. Mósebók 41:38) Þegar þjónar Guðs nú á tímum skilja ekki ákveðinn spádóm til fulls biðja þeir um anda hans. Þeir rannsaka síðan vandlega innblásið orð Guðs og leita svara í því. Með hjálp Guðs geta þeir fundið ritningarstaði sem skýra fyrir þeim merkinguna á ákveðnum spádómum. Menn öðlast ekki skilning á þeim af sjálfu sér. Það er Guð sem opinberar þýðingu spádóma fyrir milligöngu anda síns og Biblíunnar. Menn geta því ekki þýtt spádóma með því að skoða þá og túlka óháð Biblíunni. – Postulasagan 15:12-21.

Það er líka Guðs að þýða spádóma í þeim skilningi að það er hann sem ákveður og stýrir því hvenær trúfastir þjónar hans á jörð fá skýringu á þeim. Hann opinberar merkinguna ýmist áður, á meðan eða eftir að þeir rætast. Þar sem Guð er höfundur spádóma á hann líka eftir að ráða fram úr þeim á réttum tíma – á sínum tilsetta tíma.

Í frásögunni af Jósef og samföngum hans tveimur segir að hann hafi ráðið drauma þeirra þremur dögum áður en þeir rættust. (1. Mósebók 40:13, 19) Þegar Jósef var síðar meir leiddur fyrir hinn volduga faraó til að ráða drauma hans voru sjö allsnægtaár við það að hefjast. Vegna anda Guðs gat Jósef útskýrt merkinguna á draumum faraós og þannig gátu menn gert ráðstafanir til að safna saman þeirri miklu uppskeru sem spáð var fyrir um. – 1. Mósebók 41:29, 39, 40.

Þjónar Guðs fá ekki fullan skilning á sumum spádómum fyrr en eftir uppfyllingu þeirra. Spáð var fyrir um marga atburði í lífi Jesú öldum áður en hann fæddist. En lærisveinar hans skildu það ekki til fulls fyrr en eftir upprisu hans. (Sálmur 22:19; 34:21; Jóhannes 19:24, 36) Í samræmi við Daníel 12:4 áttu sumir spádómar þar að auki að vera mönnum ,innsiglaðir þar til drægi að endalokum og skilningur þeirra ykist‘. Núna er tíminn sem við sjáum þessa spádóma rætast. *

Hvernig snerta spádómar Biblíunnar þig?

Jósef og Daníel gengu fyrir konunga síns tíma og báru fram spádómsboðskap sem snerti þjóðir og ríki. Kristnir menn á fyrstu öld komu fram meðal samtímamanna sinna sem talsmenn Jehóva, Guðs spádómanna. Það var þeim til mikillar blessunar sem hlustuðu á boðskapinn og tóku við honum.

Núna boða vottar Jehóva spádómsboðskap um allan heim – fagnaðarerindið um ríki Guðs – og benda á að spádómur Jesú um að „veröldin [sé] að líða undir lok“ sé að uppfyllast. (Matteus 24:3, 14) Veistu hvaða spádómur þetta er og hvernig hann snertir þig? Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að hjálpa þér að skilja hann, þér til mikillar blessunar. Þetta er tvímælalaust einn stórfenglegasti spádómur Biblíunnar.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Samkvæmt grískri þjóðsögu var stríðsvagn Gordíosar, stofnanda höfuðborgarinnar Gordíon í Frýgíu, bundinn við staur þar í borg með rembihnút. Aðeins einn maður gæti leyst hnútinn og það yrði sá sem ætti eftir að sigra Asíu.

^ gr. 19 Sjá greinaröðina „Sex biblíuspádómar sem eru að rætast núna“ í þessu tímariti frá júlí-september 2011.

[Myndir á bls. 12, 13]

Jósef og Daníel gáfu báðir Guði heiðurinn þegar þeir skýrðu spádóma.