Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðvild – mikilvægur eiginleiki í augum Guðs

Góðvild – mikilvægur eiginleiki í augum Guðs

UNGUR maður í Japan var djúpt snortinn af þeirri hlýju sem indæll eldri maður sýndi honum. Eldri maðurinn, sem var trúboði, hafði ekki búið lengi í landinu og þekking hans á japönsku var enn takmörkuð. Þrátt fyrir það heimsótti hann unga manninn í hverri viku til að ræða við hann um Biblíuna. Þolinmóður og með bros á vör svaraði hann öllum spurningunum sem ungi maðurinn bar upp.

Hlýlegt viðmót trúboðans hafði mikil áhrif á unga manninn. Hann hugsaði með sér: „Fyrst Biblían getur gert mann svona hlýlegan og vingjarnlegan þá ætti ég fyrir alla muni að kynna mér hana.“ Þetta gaf honum þá hvatningu sem hann þurfti til að kynna sér eitthvað sem var honum algerlega framandi. Já, góðvild nær til hjartna fólks og getur haft mun meiri áhrif en það sem við segjum.

Einn af eiginleikum Guðs

Okkur er eðlislægt að sýna þeim sem eru okkur náskyldir góðvild og gæsku. En gæska er þó fyrst og fremst einn af eiginleikum Guðs. Jesús sagði að himneskur faðir sinn væri ekki aðeins góður við þá sem elskuðu hann heldur líka „við vanþakkláta“. Jesús hvatti fylgjendur sína til að líkja eftir Guði að þessu leyti. Hann sagði: „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ – Lúkas 6:35; Matteus 5:48; 2. Mósebók 34:6.

Mennirnir eru skapaðir eftir Guðs mynd og þar af leiðandi færir um að endurspegla gæsku hans. (1. Mósebók 1:27) Við getum sem sagt líkt eftir Guði og lært að sýna gæsku fleirum en aðeins þeim sem eru skyldir okkur. Í Biblíunni kemur fram að gæska sé einn þeirra eftirsóknarverðu eiginleika sem mynda ávöxt anda Guðs eða starfskraftar hans. (Galatabréfið 5:22) Það er þess vegna hægt að þroska með sér gæsku með því að læra meira um skaparann og eignast æ nánara samband við hann.

Þar sem gæska er ekki aðeins hluti af mannlegu eðli heldur einnig eiginleiki sem Guð hefur í hávegum, er ekki skrýtið að hann skuli segja okkur að vera „góðviljuð hvert við annað“. (Efesusbréfið 4:32) Í Biblíunni fáum við einnig þessa hvatningu: „Gleymið ekki gestrisninni.“ Frummálsorðið sem hér er þýtt „gestrisni“ merkir „ást á ókunnugum“. Við erum því hvött til að sýna góðvild þeim sem við þekkjum ekki. – Hebreabréfið 13:2.

En er hægt að sýna öðrum, jafnvel ókunnugum, góðvild og umhyggju nú þegar vanþakklæti og ókurteisi eru allsráðandi í samfélaginu? Hvað getur hjálpað okkur til þess? Og af hverju ætti það að skipta okkur einhverju máli?

Mikilvægt í augum Guðs

Það er athyglisvert að eftir að Páll postuli talaði um að sýna ókunnugum gestrisni, það er að segja góðvild og umhyggju, sagði hann: „Því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.“ Hvernig væri þér innanbrjósts ef þú fengir tækifæri til að fá engla í heimsókn? En Páll lauk þó setningunni á því að segja: „Án þess að vita.“ Hann var í raun að benda á að ef við leggjum það í vana okkar að sýna öðrum hlýju og góðvild, þar með talið ókunnugum, gætum við hlotið umbun fyrir á óvæntan hátt.

Flestar biblíur með millivísunum tengja orð Páls við frásögurnar af Abraham og Lot sem finna má í 1. Mósebók köflunum 18 og 19. Við lesum þar að ókunnugir menn, sem í báðum tilvikum voru englar, hafi birst þeim með mikilvægan boðskap. Abraham var sagt að loforð Guðs um að hann eignaðist son myndi rætast og Lot fékk að vita að hann gæti komist undan yfirvofandi eyðingu borganna Sódómu og Gómorru. – 1. Mósebók 18:1-10; 19:1-3, 15-17.

Ef þú lest versin sem vísað er í hér á undan muntu sjá að bæði Abraham og Lot sýndu bláókunnugum aðkomumönnum góðvild og umhyggju. Á biblíutímanum taldi fólk það vissulega skyldu sína að sýna ferðafólki og aðkomumönnum gestrisni og gilti þá einu hvort þeir væru vinir, ættingjar eða ókunnugir. Reyndar stóð í Móselögunum að Ísraelsmenn mættu ekki líta fram hjá þörfum aðkomumanna í landinu. (5. Mósebók 10:17-19) Þrátt fyrir það er augljóst að bæði Abraham og Lot gengu lengra en það sem síðar varð að ákvæði í Móselögunum. Þeir lögðu sig alla fram um að sýna þessum ókunnugu mönnum gestrisni og góðvild og þeir hlutu líka blessun fyrir.

Abraham hlaut þá blessun að eignast son en góðvild hans er einnig okkur til blessunar. Hvernig þá? Abraham og Ísak, sonur hans, gegndu mikilvægu hlutverki í fyrirætlun Jehóva. Þeir urðu ættfeður Messíasar, það er að segja Jesú. Trúfesti þeirra var líka fyrirmynd um það hvernig Guð af kærleika og óverðskuldaðri góðvild lagði grunninn að hjálpræði mannanna. – 1. Mósebók 22:1-18; Matteus 1:1, 2; Jóhannes 3:16.

Þessar frásögur leiða skýrt í ljós hvað Guð vill sjá í fari þeirra sem hann elskar. Góðvild er mikilvægur eiginleiki í augum hans og til að þóknast honum verðum við því að þroska með okkur góðvild.

Við kynnumst Guði betur þegar við sýnum góðvild

Í Biblíunni er sagt að á okkar dögum myndu margir verða „vanþakklátir [og] kærleikslausir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Eflaust þarftu oft að hafa samskipti við fólk sem er þannig. En það er þó ekki góð og gild ástæða til að hætta að sýna öðrum góðvild. Kristnir menn fá þessi fyrirmæli: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.“ – Rómverjabréfið 12:17.

Við getum lagt okkur fram um að vera fyrri til að sýna öðrum góðvild. Í Biblíunni segir: „Hver sem elskar . . . þekkir Guð.“ Kærleikurinn knýr okkur meðal annars til að sýna öðrum góðvild. (1. Jóhannesarbréf 4:7; 1. Korintubréf 13:4) Með því að vera umhyggjusöm og vingjarnleg við aðra kynnumst við Guði betur og það veitir okkur ánægju. Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru gæskuríkir því að þeim verður auðsýnd góðvild. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.“ – Matteus 5:7, 8, Young’s Literal Translation.

Abraham hlaut mikla umbun fyrir að sýna öðrum góðvild.

Aki er ung heimavinnandi húsmóðir í Japan og á tvo syni. Hún varð verulega þunglynd eftir skyndilegt fráfall móður sinnar. Henni leið stundum svo illa að hún þurfti að leita til læknis. Dag einn fluttist ný fjölskylda í hverfið. Fjölskyldufaðirinn hafði dáið af slysförum skömmu áður og móðirin sat ein eftir með fimm börn. Aki fann mikið til með þeim og lagði sig alla fram um að vingast bæði við móðurina og börnin. Hún gerði allt sem hún gat til þess að hjálpa þeim. Hún gaf þeim mat og einnig föt sem hún og fjölskyldan voru hætt að nota. Með þessu móti náði Aki sér aftur á strik. Hún kynntist af eigin raun sannleiksgildi orðanna í Postulasögunni 20:35: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Já, ein besta leiðin til að takast á við vanlíðan er að sýna öðrum góðvild og umhyggju.

Að ,lána Drottni‘

Þegar við sýnum öðrum góðvild er eins og við séum að ,lána Drottni‘.

Það þarf ekki endilega að kosta mikið að sýna öðrum góðvild. Þú þarft heldur ekki að búa yfir sérstökum hæfileikum eða vera heilsuhraustur. Þú getur nefnilega glatt aðra með því einu að brosa, segja eitthvað vingjarnlegt eða bjóða fram aðstoð þína. Það getur líka haft mikið að segja að gefa litla gjöf eða jafnvel hleypa öðrum á undan þér í röðinni. Þegar þú ert í þannig aðstæðum að þú veist ekki hvað þú átt að segja eða gera skaltu segja eða gera það sem er gott. Ungi maðurinn, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, var djúpt snortinn af hlýlegri framkomu eldri trúboðans þrátt fyrir takmarkaða japönskukunnáttu hans. Það er því ekki undarlegt að Guð vilji að tilbiðjendur sínir, ástundi kærleika‘. – Míka 6:8.

„Eitt vingjarnlegt orð getur yljað öðrum í þrjá vetrarmánuði.“ Eins og þessi austurlenski málsháttur ber með sér getur lítið góðverk haft mikið að segja. Þegar hreinar hvatir og kærleikur til Jehóva búa að baki góðverkum yljar það hjörtum allra viðkomandi. En jafnvel þótt fólk kunni ekki að meta góðvild okkar þá er henni ekki sóað. Hún er mikilvæg í augum Guðs. Í Biblíunni er sagt að við séum í rauninni að ,lána Drottni‘ þegar við sýnum öðrum góðvild. (Orðskviðirnir 19:17) Væri ekki ráð að vera vakandi fyrir því að sýna öðrum umhyggju og góðvild?