Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að ná sér eftir skilnað

Að ná sér eftir skilnað

„Mér leið eins og ég hefði fallið fram af bjargi. Lífið gekk sinn vanagang en í einni svipan breyttist allt.“ – MARKÚS, * fráskilinn í eitt ár.

„Eiginmaður minn átti í ástarsambandi við konu sem var á aldur við dóttur okkar. Þegar við skildum var ég fegin að vera laus við skapbresti hans en mér fannst ég líka niðurlægð og einskis virði.“ – EMMA, skildi fyrir 17 árum.

Sumir skilja við makann í þeirri von að bæta hlutskipti sitt í lífinu. Aðrir vilja ekki skilnað en geta ekki fengið makann til að halda hjónabandinu áfram. En nær allir sem skilja átta sig á því að lífið verður erfiðara en þeir áttu von á. Ef þú hefur gengið í gegnum hjónaskilnað hefurðu eflaust upplifað að það er einhver erfiðasta lífsreynsla sem þú hefur orðið fyrir. Það væri því ekki úr vegi að skoða nokkur gagnleg ráð í Biblíunni sem geta hjálpað þér að takast á við erfiðleika sem fylgja skilnaði.

ÁSKORUN 1: TILFINNINGARÓT.

Álagið, sem fylgir peningaáhyggjum, barnauppeldi og einmanaleika, getur verið yfirþyrmandi og tilfinningarótið getur varað í nokkurn tíma. Sálfræðingurinn Judith Wallerstein komst að því að sumir eru enn í sárum mörgum árum eftir skilnað vegna þess að þeim finnst þeir hafa verið sviknir og yfirgefnir. Þeim finnst „lífið vera ósanngjarnt, eru einmana og fullir vonbrigða“.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

  • Gefðu þér tíma til að syrgja. Kannski elskar þú makann enn og saknar hans. Og jafnvel þótt samband ykkar hafi verið slæmt getur verið að þú syrgir það að hafa ekki átt hamingjuríkt hjónaband líkt og þú vonaðist til. (Orðskviðirnir 5:18) Þú ættir ekki að skammast þín fyrir að gráta því að í Biblíunni segir: „Að gráta hefur sinn tíma.“ – Prédikarinn 3:1, 4.

  • Einangraðu þig ekki. Þótt þú þurfir frið til að syrgja er óskynsamlegt að einangra sig til lengri tíma. Þegar þú ert með vinum þínum skaltu ræða um eitthvað uppbyggilegt. Endalausar neikvæðar athugasemdir um fyrri maka geta hrakið vinina á brott, jafnvel þótt gagnrýnin sé réttmæt. Ef þú neyðist til að taka afdrifaríkar ákvarðanir fljótlega eftir skilnaðinn skaltu fyrst leita ráða hjá hlutlausum aðila sem þú treystir.

  • Hugsaðu vel um heilsuna. Álagið, sem fylgir hjónaskilnaði, hefur oft slæm áhrif á heilsuna. Það gæti til að mynda valdið háum blóðþrýstingi eða mígreni. Borðaðu hollan mat, hreyfðu þig og fáðu nægan svefn. – Efesusbréfið 5:29.

  • Losaðu þig við hluti sem vekja með þér reiði í garð fyrrverandi maka eða þú þarft ekki á að halda. Geymdu þó mikilvæga pappíra. Ef brúðkaupsmyndir eða annað valda þér sársauka skaltu pakka þeim niður og varðveita fyrir börnin.

  • Reyndu að halda neikvæðum hugsunum í skefjum. Olga skildi við eiginmann sinn eftir að hann hafði haldið fram hjá henni. Hún segir: „Ég hugsaði stöðugt um hvað hin konan hefði umfram mig.“ En eins og Olga komst að síðar meir þá geta neikvæðar hugsanir til lengri tíma orsakað „dapurt geð“. – Orðskviðirnir 18:14

    Margir hafa komist að raun um að ef þeir skrifa hugsanir sínar niður á blað hjálpar það þeim að hreinsa hugann og hafa betri stjórn á hugrenningum sínum. Ef þú prófar þetta skaltu reyna að láta nýjar og jákvæðar hugsanir koma í stað þeirra neikvæðu. (Efesusbréfið 4:23) Tökum tvö dæmi:

    Neikvætt: Það er mér að kenna að maki minn var mér ótrúr.

    Jákvætt: Maki minn hafði engan rétt til að vera mér ótrúr þótt ég hefði mína galla.

    Neikvætt: Ég sóaði bestu árum ævi minnar með röngum manni.

    Jákvætt: Ég verð ánægðari ef ég horfi fram á veginn í stað þess að sýta hið liðna.

  • Láttu særandi athugasemdir sem vind um eyrun þjóta. Velviljaðir ættingjar og vinir geta komið með óviðeigandi eða særandi athugasemdir eins og: „Hún var hvort sem er ekki nógu góð fyrir þig“ eða „Guð hatar hjónaskilnaði“. * Það er gild ástæða fyrir því að Biblían gefur okkur þessi góðu ráð: „Gefðu ekki ... gaum öllum þeim orðum sem töluð eru.“ (Prédikarinn 7:21) Marta, sem skildi fyrir tveimur árum, segir: „Í stað þess að einblína á særandi orð reyni ég að sjá hlutina frá sjónarhóli Guðs. Hugsanir hans eru hærri hugsunum okkar.“ – Jesaja 55:8, 9.

  • Biddu til Guðs. Hann hvetur tilbiðjendur sína til að ,varpa allri áhyggju sinni á hann‘, ekki síst þegar þeir eiga í erfiðleikum. – 1. Pétursbréf 5:7.

PRÓFAÐU ÞETTA: Skrifaðu niður á miða nokkur biblíuvers sem þér finnst uppörvandi og settu miðana þar sem þú átt auðvelt með að koma auga á þá. Auk biblíuversanna, sem vísað hefur verið í, hafa margir fráskildir leitað huggunar í eftirfarandi ritningarstöðum: Sálmur 27:10; 34:19; Jesaja 41:10; Rómverjabréfið 8:38, 39.

Leitaðu hjálpar í Biblíunni á erfiðum stundum.

ÁSKORUN 2: SAMBANDIÐ VIÐ FYRRVERANDI MAKA.

Júlía, sem var gift í 11 ár, segir: „Ég grátbað manninn minn um að yfirgefa mig ekki. En eftir að hann fór frá mér var ég bálreið út í hann og sambýliskonu hans.“ Margir sem upplifa hjónaskilnað ala á reiði í garð fyrrverandi maka svo árum skiptir. Fyrrverandi hjón þurfa þó að hafa samskipti áfram, ekki síst ef þau eiga börn.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

  • Leggðu þig fram um að vera kurteis þegar þú talar við fyrrverandi maka þinn. Vertu skýr en stuttorður og haltu þig við efnið. Margir hafa komist að raun um að það stuðlar að friðsamlegum samskiptum. – Rómverjabréfið 12:18

  • Kyntu ekki undir rifrildi. Ef fyrrverandi maki er hvass í orðum skaltu hugsa um þetta ráð Biblíunnar: „Hygginn maður er orðvar og skynsamur maður er fáorður.“ (Orðskviðirnir 17:27) Ef samræðurnar eru komnar út í deilur gætirðu sagt: „Ég skal hugsa um það sem þú hefur sagt og svo getum við rætt málin betur seinna.“

  • Reyndu að aðgreina öll þín mál frá málum fyrrverandi maka þíns, þar með talin læknisfræðileg, lagaleg og fjárhagsleg mál.

PRÓFAÐU ÞETTA: Næst þegar þú talar við fyrrverandi maka skaltu vera vakandi fyrir því hvort annað ykkar neitar að gefa eftir eða fer í vörn. Ef nauðsyn krefur skuluð þið gera hlé á samræðunum eða koma ykkur saman um að ræða málin með tölvupósti. – Orðskviðirnir 17:14.

ÁSKORUN 3: AÐ HJÁLPA BÖRNUNUM AÐ TAKAST Á VIÐ BREYTTAR AÐSTÆÐUR.

María segir frá hvernig ástandið var eftir að hún skildi: „Yngri dóttir mín grét nánast stanslaust og fór aftur að væta rúmið. Og þótt eldri dóttir mín reyndi að fela tilfinningar sínar sá ég breytingu á henni líka.“ Börnin þín þurfa verulega á stuðningi þínum að halda en því miður gæti þér fundist þú hafa lítinn tíma eða skorta krafta til að hjálpa þeim.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

  • Fáðu börnin til að ræða við þig um hvernig þeim líður jafnvel þótt umræðan leiðist stundum út í orð töluð „í gáleysi“. – Jobsbók 6:2, 3.

  • Settu börnin ekki í hlutverk fullorðinna. Jafnvel þótt þú þurfir á tilfinningalegum stuðningi að halda og barnið þitt vilji veita þér hann væri óréttlátt og óheilbrigt að láta barnið taka ábyrgð á vandamálum fullorðinna. (1. Korintubréf 13:11) Gerðu barnið ekki að trúnaðarvini þínum eða milligöngumanni milli þín og fyrrverandi maka.

  • Reyndu að halda lífi barnsins í föstum skorðum. Það væri gott ef þið þyrftuð ekki að flytja og gætuð haft svipaða stundaskrá og áður. Mikilvægast er þó að hafa góða andlega dagskrá sem felur í sér biblíulestur og tilbeiðslustund fjölskyldunnar. – 5. Mósebók 6:6-9.

PRÓFAÐU ÞETTA: Á næstu dögum skaltu fullvissa börnin um að þú elskir þau og að það sé ekki þeirra sök að þú og maki þinn skilduð. Svaraðu spurningum þeirra án þess að skella skuldinni á hitt foreldrið.

Þú getur náð þér eftir skilnað. Lovísa, sem var gift í 16 ár, segir: „Þegar við hjónin skildum hugsaði ég með mér að það hefði aldrei verið ætlunin að líf mitt yrði svona.“ En nú er Lovísa sátt þrátt fyrir aðstæður sínar. Hún segir: „Um leið og ég hætti að reyna að breyta fortíðinni leið mér miklu betur.“

^ gr. 2 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 18 Guð hatar hjónaskilnað byggðan á svikum og undirferli. En ef annað hjónanna drýgir hór hefur Guð gefið saklausa makanum rétt til að ákveða hvort hann vilji sækja um skilnað eða ekki. (Malakí 2:16, Biblían 1981; Matteus 19:9) Sjá nánar í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. febrúar 1994 í grein sem nefnist „Hvers konar hjónaskilnað hatar Guð?“ Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva.

SPYRÐU ÞIG ...

  • Hef ég gefið mér tíma til að syrgja hjónabandið?

  • Hvernig get ég látið af reiðinni í garð fyrrverandi maka míns?