Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | LÍF EFTIR DAUÐANN – ER ÞAÐ MÖGULEGT?

Vonin um að látnir fái líf á ný – getum við treyst henni?

Vonin um að látnir fái líf á ný – getum við treyst henni?

Er barnalegt að trúa því að dánir fái líf á ný? Páli postula fannst það ekki. Hann skrifaði undir innblæstri: „Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna. En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru.“ (1. Korintubréf 15:19, 20) Páll var fullviss um upprisuna. Upprisa Jesú var sönnun fyrir henni. * (Postulasagan 17:31) Þess vegna kallaði Páll Jesú ,frumgróða‘. Hann var sá fyrsti sem var reistur upp til eilífs lífs. Ef hann var sá fyrsti er rökrétt að álykta að aðrir fylgi á eftir.

Job sagði við Guð: „Þú mundir þrá verk handa þinna.“ – Jobsbók 14:14, 15.

Skoðum aðra ástæðu fyrir því að við getum treyst upprisuvoninni. Jehóva er Guð sannleikans. Hann er „Guð, sem aldrei lýgur“. (Títusarbréfið 1:2) Jehóva hefur aldrei sagt ósatt og mun aldrei gera það. Myndi hann gefa okkur von um upprisu og jafnvel sýna okkur að hann geti uppfyllt hana og síðan ganga á bak orða sinna? Því fer fjarri!

Af hverju ætlar Jehóva að reisa látna upp til lífs á ný? Vegna þess að hann elskar mennina. „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ spurði Job. „Þú mundir kalla, og ég – ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15, Biblían 1981) Job var sannfærður um að ástríkur faðir hans á himnum myndi þrá að gefa honum líf á ný. En hefur Jehóva breyst? „Ég, Drottinn, er ekki breyttur.“ (Malakí 3:6) Það er enn löngun Guðs að hinir látnu fái líf á ný við fullkomna heilsu og hamingju. Jehóva er eins og allir ástríkir foreldrar sem þrá að sjá aftur barn sem þeir hafa misst í dauðann. Munurinn er auðvitað sá að Guð hefur mátt til að gera það sem hann óskar. – Sálmur 135:6.

Dauðinn er hræðilegur vandi en Guð hefur fullkomna lausn á honum.

Jehóva Guð mun gefa syni sínum vald til að gleðja óumræðilega þá sem hafa misst ástvini í dauðann. Hvað finnst Jesú um upprisuna? Áður en hann reisti Lasarus upp varð hann vitni að angist systra Lasarusar og vina og „þá grét Jesús“. (Jóhannes 11:35) Öðru sinni gekk Jesús fram á ekkju nokkra frá Nain sem hafði misst einkason sinn. Jesús „kenndi ... í brjósti um hana og sagði við hana: ,Grát þú eigi!‘“ Hann reisti síðan son hennar upp frá dauðum. (Lúkas 7:13) Sorg og dauði hafa því sterk áhrif á Jesú. Hann verður innilega glaður að geta breytt sorg í gleði um allan heim.

Hefur þú séð á eftir einhverjum í dauðann? Hugsar þú að dauðinn sé vandi sem ekkert er hægt að gera við? Það er sannarlega til lausn. Guð mun fela syni sínum að reisa upp látna. Hafðu hugfast að Guði langar til að þú verðir vitni að upprisunni. Hann vill að þú fáir að taka á móti ástvinum þínum. Ímyndaðu þér hvernig þú átt eftir að gera áætlanir með þeim fyrir eilífa framtíð – vitandi að þið þurfið aldrei aftur að skiljast að.

Lionel, sem vitnað var í áður, segir: „Fyrst þegar ég heyrði um upprisuna fannst mér erfitt að trúa að hún væri sönn og ég treysti ekki þeim sem sagði mér frá henni. Ég aflaði mér nánari upplýsinga í Biblíunni um upprisuna og komst að því að hún er örugg. Núna get ég varla beðið eftir að hitta afa minn aftur.“

Langar þig til að vita meira? Vottum Jehóva væri sönn ánægja að sýna þér í þinni eigin biblíu af hverju þeir trúa á upprisuna. *

^ gr. 3 Sjá sannanir fyrir því að Jesús var reistur upp frá dauðum í bókinni The Bible – God’s Word or Man’s? (Biblían – orð Guðs eða manna?) bls. 78-86. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva en er ekki til á íslensku.

^ gr. 9 Sjá kafla 7 í bókinni Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva. .