Hoppa beint í efnið

Hverjir eru englarnir?

Hverjir eru englarnir?

Svar Biblíunnar

 Englar eru verur sem eru voldugri og búa yfir meiri hæfileikum en menn. (2. Pétursbréf 2:11) Þeir búa á himni eða á andlegu tilverusviði sem er æðra efnisheiminum. (1. Konungabók 8:27; Jóhannes 6:38) Þess vegna eru þeir líka kallaðir andar. –1. Konungabók 22:21; Sálmur 18:11.

Hvaðan koma englarnir?

 Guð notaði Jesú til að skapa englana en í Biblíunni er hann nefndur „frumburður allrar sköpunar“. Þar er því lýst hvernig Jesús kom að sköpuninni. ,Enda var allt skapað í Jesú í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega‘, þar á meðal englarnir. (Kólossubréfið 1:13-17) Englar giftast ekki og eignast ekki börn. (Markús 12:25) Allir þessir „synir Guðs“ voru skapaðir. – Jobsbók 1:6.

 Englar voru skapaðir fyrir löngu síðan, áður en jörðin varð til. Þegar Guð skapaði jörðina ,fögnuðu allir synir Guðs.‘ – Jobsbók 38:4-7.

Hvað eru englarnir margir?

 Biblían nefnir ekki nákvæma tölu en gefur til kynna að þeir séu fjölmargir. Til dæmis sá Jóhannes postuli í sýn hundruð milljóna engla. – Opinberunarbókin 5:11.

Eiga englarnir sér nöfn og hafa þeir persónuleika?

 Já. Tveir englar eru nafngreindir í Biblíunni, þeir Míkael og Gabríel. (Daníel 12:1; Lúkas 1:26) a Aðrir englar sögðust eiga sér nöfn en gáfu þau ekki upp. – 1. Mósebók 32:29; Dómarabókin 13:17, 18.

 Englar eru hver með sinn persónuleika. Þeir geta tjáð sig hver við annan. (1. Korintubréf 13:1) Þeir geta beitt rökhugsun og eru færir um að setja saman og tjá lofgjörð til Guðs. (Lúkas 2:13, 14) Þeir hafa frelsi til að velja að gera rétt eða rangt en það má sjá af því að sumir þeirra gengu í lið með Satan í uppreisn hans gegn Guði. – Matteus 25:41; 2. Pétursbréf 2:4.

Hafa englar mismunandi stöður?

 Já. Voldugasti og máttugasti engillinn er kallaður höfuðengillinn Míkael (Júdasarbréfið 9; Opinberunarbókin 12:7) Serafar gegna hárri stöðu og þjóna við hásæti Jehóva. (Jesaja 6:2, 6) Kerúbar gegna líka hárri stöðu. Þeir sjá um sérstök verkefni. Til dæmis stóðu kerúbar vörð við innganginn að Edengarðinum eftir að Adam og Eva voru rekin þaðan. – 1. Mósebók 3:23, 24.

Hjálpa englar fólki?

 Já, Guð notar trúfasta engla til að hjálpa fólki.

Á hvert og eitt okkar sér verndarengil?

 Þótt englar gæti að andlegri velferð þjóna Guðs þýðir það ekki endilega að hann láti hvern kristinn mann hafa verndarengil. b (Matteus 18:10) Englar vernda ekki þjóna Guðs gegn öllum prófraunum og freistingum. Biblían sýnir að Guð sér oft til þess að fólk ,fái staðist‘ prófraunir með því að veita því visku og styrk til að halda út. – 1. Korintubréf 10:12, 13; Jakobsbréfið 1:2-5.

Ranghugmyndir um engla

 Ranghugmynd: Allir englar eru góðir.

 Staðreynd: Biblían talar um „andaverur vonskunnar“ og engla sem „syndguðu“. (Efesusbréfið 6:12; 2. Pétursbréf 2:4) Þessir illu andar eru englar sem gengu til liðs við Satan í uppreisn hans gegn Guði.

 Ranghugmynd: Englar eru ódauðlegir.

 Staðreynd: Illum englum, þar á meðal Satan, verður tortímt. – Júdasarbréfið 6.

 Ranghugmynd: Fólk verður að englum þegar það deyr.

 Staðreynd: Englar eru ekki dáið fólk sem hefur fengið upprisu heldur skapaði Jehóva þá beint. (Kólossubréfið 1:16) Þeir sem rísa upp til lífs á himni fá ódauðleika að gjöf frá Guði. (1. Korintubréf 15:53, 54) Þeir fá hærri stöðu en englarnir. – 1. Korintubréf 6:3.

 Ranghugmynd: Hlutverk engla er að þjóna mönnum.

 Staðreynd: Englar hlýða skipunum frá Guði en ekki okkur. (Sálmur 103:20, 21) Meira að segja Jesús viðurkenndi að hann beindi bænum sínum um hjálp til Guðs en ekki beint til engla. – Matteus 26:53.

 Ranghugmynd: Við getum beðið engla um hjálp.

 Staðreynd: Bæn er þáttur í tilbeiðslu og þess vegna á að biðja til Jehóva Guðs. (Opinberunarbókin 19:10) Við ættum eingöngu að beina bænum okkar til Guðs en í nafni Jesú. – Jóhannes 14:6.

a Heitið „Lúsífer” er notað í sumum biblíuþýðingum í Jesaja 14:12. Sumir skilja það svo að það sé nafn engilsins sem varð Satan Djöfullinn. En á frummálinu er notað hebreskt orð sem merkir „ljósberi”. Samhengið sýnir að heitið vísar ekki til Satans heldur konungsættar Babýlonar sem Guð átti eftir að auðmýkja vegna hroka hennar. (Jesaja 14:4, 13-20) Heitið „ljósberi“ var notað til að hæða konungsætt Babýlonar eftir að henni var steypt af stóli.

b Sumir hafa túlkað frásöguna af því þegar Pétur losnaði úr fangelsi þannig að hann ætti sér verndarengil. (Postulasagan 12:6-16) En þegar lærisveinarnir töluðu um ,engil‘ Péturs hafa þeir kannski haldið að engill hafi komið komið í staðinn fyrir Pétur sem fulltrúi hans.