Hoppa beint í efnið

Einu sinni frelsaður alltaf frelsaður?

Einu sinni frelsaður alltaf frelsaður?

Svar Biblíunnar

 Í Biblíunni kemur sú hugmynd ekki fram að maður sem einu sinni frelsast sé alltaf frelsaður. Sá sem hefur hlotið frelsun vegna trúar á Jesú Krist getur glatað trúnni og frelsuninni sem henni fylgir. Biblían segir að það þurfi að „berjast af krafti fyrir trúnni“. (Júdasarbréfið 3, 5) Frumkristnum mönnum sem höfðu þegar tekið við Kristi var sagt að ‚halda áfram að vinna að björgun sinni af alvöru og með ótta‘. – Filippíbréfið 2:12.

Biblíuvers sem sýna að þessi hugmynd eigi sér enga stoð í Biblíunni

  •   Biblían varar við alvarlegum syndum sem koma í veg fyrir að maður komist í ríki Guðs. (1. Korintubréf 6:9–11; Galatabréfið 5:19–21) Ef frelsun væri tryggð í eitt skipti fyrir öll hefðu slíkar viðvaranir ekkert gildi. Biblían sýnir að fólk sem hefur fengið frelsun geti fallið frá ef það tekur aftur upp syndugt líferni. Biblían segir til dæmis í Hebreabréfinu 10:26: „Ef við syndgum vísvitandi eftir að hafa fengið nákvæma þekkingu á sannleikanum er enga fórn lengur að fá fyrir syndirnar.“ – Hebreabréfið 6:4–6; 2. Pétursbréf 2:20–22.

  •   Jesús notaði líkingu sem leggur áherslu á mikilvægi þess að varðveita trúna. Hann líkti sjálfum sér við vínvið og fylgjendum sínum við greinarnar á honum. Sumir þeirra höfðu um tíma sýnt trú með ávöxtum sínum eða verkum en af einhverjum ástæðum hætt því og orðið eins og ávaxtalausar greinar „sem er fleygt“. Já, þeir misstu hjálpræðisvonina. (Jóhannes 15:1–6) Páll postuli notaði svipaða líkingu sem gefur til kynna að kristinn maður sem varðveitir ekki trúna verður „höggvinn af“. – Rómverjabréfið 11:17–22.

  •   Kristnir menn eru hvattir til að ‚halda vöku sinni‘. (Matteus 24:42; 25:13) Þeir sem sofna á verðinum í andlegum skilningi, annaðhvort með því að stunda „verk myrkursins“ eða með því að vanrækja það sem Jesús bað okkur að gera, glata voninni um frelsun. – Rómverjabréfið 13:11–13; Opinberunarbókin 3:1–3.

  •   Mörg biblíuvers sýna að þeir sem hljóta frelsun verða að vera trúir og þolgóðir allt til enda. (Matteus 24:13; Hebreabréfið 10:36; 12:2, 3; Opinberunarbókin 2:10) Kristnir menn á fyrstu öldinni voru glaðir þegar þeir heyrðu að trúsystkini sín væru þolgóð í trúnni. (1. Þessaloníkubréf 1:2, 3; 3. Jóhannesarbréf 3, 4) Hvers vegna leggur Biblían svona ríka áherslu á trúfesti og þolgæði ef þolgæði skiptir engu máli til að hljóta frelsun?

  •   Það var ekki fyrr en rétt fyrir dauða sinn sem Páll postuli var öruggur um að hljóta frelsun. (2. Tímóteusarbréf 4:6–8) Fyrr á ævinni gerði hann sér grein fyrir því að ef hann léti undan girndum holdsins gæti hann farið á mis við frelsunina. Hann skrifaði: „Ég beiti sjálfan mig hörðu og geri líkamann að þræli mínum svo að ég, sem hef kennt öðrum, reynist ekki óhæfur einhverra hluta vegna.“ – 1. Korintubréf 9:27; Filippíbréfið 3:12–14.