Hoppa beint í efnið

Hvað táknar sjöhöfða villidýrið í Opinberunarbókinni kafla 13?

Hvað táknar sjöhöfða villidýrið í Opinberunarbókinni kafla 13?

Svar Biblíunnar

 Villidýrið með sjö höfuð sem kynnt er til sögunnar í Opinberunarbókinni 13:1 táknar stjórnmálakerfi heimsins í heild sinni.

  •   Það hefur mátt, vald og hásæti sem bendir til þess að um stjórnmálalegt veldi sé að ræða. – Opinberunarbókin 13:2.

  •   Það ríkir yfir „hverjum ættflokki, kynþætti, tungu og þjóð“ þannig að það er voldugra en eitthvert eitt þjóðríki. – Opinberunarbókin 13:7.

  •   Það sameinar viss einkenni dýranna fjögurra sem lýst er í spádóminum í Daníel 7:2–8 eins og útlit hlébarða, fætur bjarnar, ljónsgin og tíu horn. Villidýrin í spádómi Daníels eru auðkennd sem ákveðnir konungar eða stjórnmálaleg konungsríki sem fara með völd yfir heimsveldum hvert á fætur öðru. (Daníel 7:17, 23) Villidýrið í Opinberunarbókinni 13. kafla táknar því samsett stjórnmálaveldi.

  •   Það kemur „upp úr hafinu“, það er hinu ólgandi mannhafi þaðan sem stjórnir manna fá vald sitt. – Opinberunarbókin 13:1; Jesaja 17:12, 13.

  •   Biblían segir að tala eða nafn dýrsins sé 666 sem er „tala manns“. (Opinberunarbókin 13:17, 18) Þetta orðalag gefur til kynna að villidýrið í Opinberunarbókinni 13. kafla sé í eðli sínu mennsk stofnun en ekki andleg eða fyrirkomulag illra anda.

 Þó að þjóðirnar séu ósammála um flest þá eru þær sameinaðar í því að halda í völd sín frekar en að beygja sig undir stjórn Guðsríkis. (Sálmur 2:2) Þær munu líka sameinast um að berjast við hersveitir Guðs sem lúta Jesú Kristi í Harmagedónstríðinu en það mun enda með eyðingu þjóðanna. – Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:19, 20.

„Tíu horn og sjö höfuð“

 Sumar tölur hafa táknræna merkingu í Biblíunni. Til að mynda merkja tölurnar tíu og sjö algerleika. Lykillinn að því að skilja hvað ‚hornin tíu og höfuðin sjö‘ á villidýrinu í 13. kafla Opinberunarbókarinnar merkja er „líkneskið af villidýrinu“. Síðar í Opinberunarbókinni eru borin kennsl á það og sagt að það sé skarlatsrautt og hafi sjö höfuð og tíu horn. (Opinberunarbókin 13:1, 14, 15; 17:3) Biblían segir að höfuðin sjö á þessu rauða villidýri merki ‚sjö konunga‘ eða ríkisstjórnir. – Opinberunarbókin 17:9, 10.

 Eins tákna líka höfuðin sjö á þessu villidýri í Opinberunarbókinni 13:1 sjö stjórnir: stjórnmálaöflin sem hafa farið með heimsyfirráð í gegnum söguna og hafa farið fremst í að kúga fólk Guðs – Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía og Persía, Grikkland, Róm og ensk-ameríska tvíveldið. Ef við drögum þá ályktun að hornin tíu merki öll sjálfstæð ríki, bæði stór og smá, þá merkir, djásn eða kóróna hvers horns að viðkomandi ríki sé við völd samtímis ríkjandi veldi þess tímabils.