Hoppa beint í efnið

Eitt biblíunámskeið varð að mörgum

Eitt biblíunámskeið varð að mörgum

 Marta sem er vottur Jehóva í Gvatemala er að læra tungumálið Kekchi, til að geta boðað fólki sem talar það tungumál trúna. Dag nokkurn sá hún mann vera að yfirgefa spítala. Af útliti hans að dæma fannst Mörtu sennilegt að hann kæmi frá Kekchi þorpi í fjöllunum þar sem vottar Jehóva fóru sjaldan til að boða trúna. Hún nálgaðist manninn og ávarpaði hann með sínum takmarkaða orðaforða á Kekchi.

 Marta bauð manninum biblíunámskeið. Hann þáði það glaður í bragði en sagðist ekki hafa pening til að borga fyrir það. Marta útskýrði að vottar Jehóva kenndu fólki Biblíuna því að kostnaðarlausu. Hún sagði honum líka að námskeiðið gæti farið fram símleiðis og að öll fjölskyldan væri velkomin að vera með. Maðurinn samþykkti þetta. Þar sem hann talar og les spænsku gaf Marta honum Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar á spænsku. Hún gaf honum líka eintak af biblíunámsbókinni Hvað kennir Biblían? á Kekchi máli. Vikuna þar á eftir byrjuðu maðurinn, kona hans og börnin þeirra tvö að kynna sér Biblíuna með Mörtu símleiðis. Námskeiðið fór fram tvisvar í viku. „Þar sem ég tala Kekchi ekki reiprennandi,“ segir Marta „fóru umræðurnar fram á spænsku og maðurinn túlkaði fyrir konuna sína. Börnin skildu spænsku.“

 Þessi maður var prestur í kirkjunni sinni. Hann byrjaði að segja sóknarbörnum sínum frá því sem hann var að læra af biblíunámi sínu. Þeim féll það vel í geð og þau spurðu hvar hann hafði lært þessar nýju kenningar. Þegar hann sagði þeim frá biblíunámskeiði sínu, fóru þau hvert af öðru að mæta líka. Áður en langt um leið voru 15 manns viðstaddir í símanámskeiðinu með Mörtu. Síðar var komið fyrir hljóðnema nálægt símanum svo að allir gætu heyrt það sem sagt var.

 Þegar Marta sagði öldungunum í söfnuði sínum frá biblíunámskeiðinu heimsótti einn þeirra þorpið þar sem nemendurnir búa. Hann bauð þeim að vera viðstaddir opinberan fyrirlestur sem farandhirðir a átti að flytja í þorpi nokkru. Fyrst þurfti að aka í klukkutíma og síðan ganga í tvo klukkutíma til að komst þangað. Nemendurnir samþykktu að koma og 17 þeirra gerðu það.

 Nokkrum vikum síðar heimsóttu farandhirðirinn og aðrir vottar námshópinn. Þeir voru þar í fjóra daga. Á morgnana horfðu þau á biblíutengd myndbönd á jw.org á Kekchi máli og þau lásu líka bæklinginn Hverjir gera vilja Jehóva? Eftir hádegið horfðu þau á valin myndbönd í Sjónvarpi Votta Jehóva. Farandhirðirinn kom því líka í kring að hver nemandi fengi sinn einkakennara.

 Meðan á þessari fjögurra daga heimsókn stóð boðuðu þeir líka trúna í nálægum Kekchi þorpum og buðu fólki á sérstaka samkomu. Á samkomunni buðu bræðurnir þeim 47 sem voru viðstaddir að fá sitt eigið biblíunámskeið. Ellefu fjölskyldur þáðu boðið.

 Fáeinum mánuðum síðar skipulögðu öldungarnir samkomuhald í fyrsta þorpinu um hverja helgi. Núna sækja um það bil 40 manns þessar samkomur reglulega. Og þegar bræðurnir héldu minningarhátíðina um dauða Jesú glöddust þeir yfir því að 91 var viðstaddur.

 Þegar Marta rifjar upp hvernig þessi atburðarás byrjaði og hvernig hún þróaðist segir hún: „Ég er Jehóva þakklát. Stundum finnst mér ég ekki geta gert mikið. En við erum verkfæri í höndum Guðs. Hann vissi hvað bjó í hjörtum þessara þorpsbúa og dró þá til fólks síns. Jehóva elskar þá.“

a Farandhirðir er þjónn Jehóva sem heimsækir um það bil 20 söfnuði sem mynda farandsvæði.