Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. Hluti

Hvernig leysa á vandamál

Hvernig leysa á vandamál

„Hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ – 1. Pétursbréf 4:8.

Þegar þú og makinn hefjið nýtt líf saman geta ýmis vandamál komið upp. Þau gætu stafað af því að þið hafið ólíkan hugsunarhátt og skoðanir, og eruð vön að gera hlutina með ólíkum hætti. Vandamál geta líka skotið upp kollinum vegna utanaðkomandi orsaka og ófyrirsjáanlegra atburða.

Það getur verið freistandi að loka augunum fyrir veruleikanum. Í Biblíunni er okkur þó ráðlagt að takast á við vandamál okkar. (Matteus 5:23, 24) Besta leiðin til að leysa vandamál er að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

1 RÆÐIÐ UM VANDAMÁLIÐ

BIBLÍAN SEGIR: „Að tala hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7) Gætið þess að taka frá tíma til að ræða um vandamálið. Segðu makanum hreinskilnislega frá því hvernig þér líður og hvað þér finnst um málið. „Talið sannleika“ hvort við annað öllum stundum. (Efesusbréfið 4:25) Jafnvel þótt sterkar tilfinningar geri vart við sig skaltu forðast rifrildi. Með því að svara rólega er hægt að koma í veg fyrir að umræðurnar, sem ættu að vera uppbyggilegar, snúist upp í deilur. – Orðskviðirnir 15:1; 26:20.

Jafnvel þótt þú sért ósammála maka þínum skaltu ávallt vera ljúfur við hann og sýna honum kærleika og virðingu. (Kólossubréfið 4:6) Reynið að leysa vandann eins fljótt og hægt er og hættið ekki að tala saman. – Efesusbréfið 4:26.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Komið ykkur saman um hentugan tíma til að ræða um vandamálið.

  • Þegar komið er að þér að hlusta skaltu forðast að grípa fram í fyrir makanum. Þú átt líka eftir að fá tækifæri til að tjá þig.

2 HLUSTAÐU OG SÝNDU SKILNING

BIBLÍAN SEGIR: „Verið ástúðleg hvert við annað ... og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómverjabréfið 12:10) Það skiptir miklu máli hvernig þið hlustið hvort á annað. Verið „hluttekningarsöm og ... auðmjúk“ þegar þið reynið að skilja sjónarmið hvors annars. (1. Pétursbréf 3:8; Jakobsbréfið 1:19) Það er ekki nóg að þykjast bara hlusta. Leggðu til hliðar það sem þú ert að gera og veittu maka þínum óskipta athygli. Ef það er ekki hægt skaltu spyrja hann hvort þið getið rætt málið síðar. Ef þú lítur á maka þinn sem samherja í stað þess að líta á hann sem mótherja verðurðu „ekki auðreittur til reiði“. – Prédikarinn 7:9.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Haltu áfram að hlusta á maka þinn með opnum huga jafnvel þótt þér líki ekki það sem þú heyrir.

  • Reyndu að átta þig á hvað býr að baki orðunum. Taktu eftir líkamstjáningu makans og raddblæ.

3 LÁTTU VERKIN TALA

BIBLÍAN SEGIR: „Allt erfiði færir ágóða en fánýtt hjal leiðir til skorts.“ (Orðskviðirnir 14:23) Það er ekki nóg að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þið verðið að fylgja ákvörðun ykkar eftir. Það getur útheimt mikla vinnu og erfiði, en það er þess virði. (Orðskviðirnir 10:4) Ef þið vinnið saman að málunum munuð þið „hafa betri laun“ fyrir erfiði ykkar. – Prédikarinn 4:9.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Ákveðið hvernig þið getið hjálpast að við að leysa vandamálið.

  • Kannið af og til hvernig ykkur gengur að fylgja ákvörðun ykkar eftir.