Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Hvað einkennir góðan föður?

Hvað einkennir góðan föður?

„Hvað gerði ég rangt?“ Michael, * sem býr í Suður-Afríku, velti þessari spurningu fyrir sér í hvert sinn sem hann hugsaði um 19 ára uppreisnargjarnan son sinn. Hann hafði reynt sitt besta til að vera góður pabbi en gat ekki annað en spurt sig hvort hann hefði getað gert betur.

Terry, sem býr á Spáni, virðist aftur á móti hafa tekist vel til með föðurhlutverkið. Andrew, sonur hans, segir: „Margar af fyrstu minningum mínum um pabba eru af honum að lesa fyrir mig, leika við mig og fara með mér í ferðalög þar sem við gátum verið einir saman. Hann gat gert nám lifandi og skemmtilegt.“

Það er vissulega ekki auðvelt að vera góður faðir. En í Biblíunni má finna gagnlegar leiðbeiningar. Margir fjölskyldufeður hafa tileinkað sér viskuna sem þar er að finna og öll fjölskyldan notið góðs af. Lítum á nokkur hagnýt ráð frá Biblíunni sem feður geta nýtt sér.

1. Gefðu þér tíma með fjölskyldunni

Hvernig geturðu sýnt börnunum að þau skipti þig máli? Þú gerir vafalaust margt fyrir börnin þín eins og að fæða þau, klæða og sjá þeim fyrir góðu heimili. Það myndirðu ekki gera nema af því að þau skipta þig miklu máli. En ef þú gefur þér ekki nægan tíma með þeim gætu þau haldið að þú hafir meiri áhuga á vinnunni, áhugamálunum og vinunum heldur en á þeim.

Hvenær ættu feður að byrja að verja tíma með börnum sínum? Móðir byrjar að mynda tengsl við barn sitt meðan það er enn í móðurkviði. Barnið er hugsanlega farið að heyra um 16 vikum eftir getnað. Á þeim tíma getur faðirinn líka byrjað að tengjast ófæddu barni sínu sterkum böndum. Hann getur hlustað á hjartslátt barnsins, fundið það sparka, talað við það og sungið fyrir það.

Ráðlegging Biblíunnar: Á biblíutímanum tóku karlar þátt í að kenna börnum sínum. Feður voru hvattir til að gefa sér reglulega tíma með börnunum eins og kemur skýrt fram í 5. Mósebók 6:6, 7: „Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“

2. Góðir feður kunna að hlusta

Hlustaðu af athygli án þess að bregðast harkalega við.

Til að eiga innihaldsrík tjáskipti við börnin þín þarftu að hlusta vandlega. Þú þarft að kunna að hlusta á þau án þess að bregðast of harkalega við því sem þau segja.

Ef börnin halda að þú rjúkir upp og dæmir þau finna þau ekki hjá sér hvöt til að segja þér hvað þeim liggur á hjarta. En ef þú heldur ró þinni og hlustar á þau af athygli sýnirðu að þú hafir einlægan áhuga á þeim. Þá er mun líklegra að þau segi þér frá því hvað þau eru að hugsa og hvernig þeim líður.

Ráðlegging Biblíunnar: Góð ráð úr Biblíunni hafa reynst gagnleg á mörgum sviðum daglegs lífs. Eitt þeirra er á þessa leið: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ (Jakobsbréfið 1:19) Feður, sem fylgja þessu ráði Biblíunnar, eiga betri tjáskipti við börnin sín.

3. Hrósaðu börnunum og veittu þeim aga

Aginn, sem þú veitir börnunum, ætti alltaf að bera þess vott að þér sé annt um velferð þeirra. Það á líka við þegar þú ert pirraður eða reiður. Að aga börnin felur í sér að ráðleggja þeim, leiðrétta þau, kenna þeim og refsa þeim þegar þess þarf.

Aginn er auk þess miklu áhrifaríkari þegar feður venja sig á að hrósa börnum sínum. Gamall málsháttur hljóðar svo: „Gullepli í silfurskálum, svo eru vel valin orð.“ (Orðskviðirnir 25:11) Hrós styrkir góða eiginleika barnsins. Börn njóta sín vel þegar þau finna að foreldrarnir taka eftir þeim og kunna að meta þau. Faðir, sem leitar færis á að hrósa börnum sínum, byggir upp sjálfstraust hjá þeim og hvetur þau til að halda áfram að reyna að gera það sem er rétt.

Ráðlegging Biblíunnar: „Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ – Kólossubréfið 3:21.

4. Elskaðu og virtu konuna þína

Það hefur tvímælalaust áhrif á börn hvernig pabbi þeirra kemur fram við mömmu þeirra. Sérfræðihópur nokkur segir um þroska barna: „Eitt af því besta, sem faðir getur gert fyrir börn sín, er að virða móður þeirra . . . Börn búa við öryggi þegar þau sjá að pabbi þeirra og mamma virða hvort annað.“ – The Importance of Fathers in the Healthy Development of Children. *

Ráðlegging Biblíunnar: „Karlmenn, elskið konur ykkar . . . Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ – Efesusbréfið 5:25, 33.

5. Notfærðu þér góð ráð frá Guði

Feður, sem elska Guð, eiga verðmætan arf handa börnum sínum – náið samband við föður sinn á himnum.

Antonio er vottur Jehóva sem lagði hart að sér við að ala upp börnin sín sex. Hann fékk eftirfarandi bréf frá einni dóttur sinni: „Elsku pabbi. Mig langaði bara til að þakka þér fyrir að ala mig upp þannig að ég elskaði Jehóva Guð, náungann og sjálfa mig. Það gerði mig að heilsteyptum einstaklingi. Þú sýndir mér að þú elskar Jehóva og lætur þér annt um velferð mína. Takk, pabbi minn, fyrir að setja Jehóva Guð í fyrsta sæti í lífinu og að líta á okkur börnin sem gjafir frá honum.“

Ráðlegging Biblíunnar: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst.“ – 5. Mósebók 6:5, 6.

Að sjálfsögðu er meira innifalið í föðurhlutverkinu en fimm framangreind atriði. Og staðreyndin er sú að jafnvel þegar menn reyna sitt besta til að vera góðir feður tekst þeim það ekki fullkomlega. En ef þú reynir að fylgja þessum ráðum á ástríkan og öfgalausan hátt geturðu verið góður faðir. *

^ Sumum nöfnum er breytt í þessari grein.

^ Þó að foreldrarnir séu skildir að skiptum hefur það góð áhrif á samband barnanna við móður sína ef faðir þeirra kemur fram við hana af kurteisi og virðingu.

^ Finna má fleiri hollráð handa fjölskyldunni í bókinni Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? gefin út af Vottum Jehóva, eða undir liðnum „Handa fjölskyldunni“ á vefsíðunni www.mr1310.com.