Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Var fólk svona langlíft á biblíutímanum?

Var fólk svona langlíft á biblíutímanum?

Var fólk svona langlíft á biblíutímanum?

JEANNE LOUISE CALMENT lést þann 4. ágúst 1997 í heimabæ sínum í suðaustanverðu Frakklandi. Hún var 122 ára að aldri.

Framfarir í vísindum, heilsuvernd og á öðrum sviðum gera fólki mögulegt að ná háum aldri. Samt sem áður verða ekki ýkja margir 100 ára eða eldri. Það er líklega ástæðan fyrir því að þeir sem gera það, eins og Jeanne Louise Calment, komast stundum í heimsfréttirnar.

Í Biblíunni er sagt frá því að fólk hafi náð mjög háum aldri til forna og að sumir hafi lifað í tæplega þúsund ár. Er það satt eða trúverðugt? Getur það staðist að fólk hafi orðið svona langlíft á biblíutímanum? Ætti það að skipta okkur máli sem lifum nú á dögum?

Fólk sem varð mjög langlíft

Í 1. Mósebók er getið um sjö menn sem lifðu í meira en 900 ár. Þeir voru allir fæddir fyrir Nóaflóðið. Þetta voru þeir Adam, Set, Enos, Kenan, Jared, Metúsala og Nói. (1. Mósebók 5:5-27; 9:29) Fæstir kannast við þá alla, en þeir tilheyrðu fyrstu tíu kynslóðunum í sögu mannkyns. Metúsala er þekktur fyrir að hafa lifað allra manna lengst eða 969 ár.

Þar að auki eru að minnsta kosti 25 aðrir einstaklingar nefndir í Biblíunni sem náðu mun hærri aldri en gengur og gerist nú á dögum. Sumir þeirra lifðu í 300, 400 og jafnvel 700 ár eða lengur. (1. Mósebók 5:28-31; 11:10-25) Margir telja þó að frásagnir Biblíunnar af einstaklingum, sem náðu þetta háum aldri, séu goðsögur einar. Er það raunin?

Goðsögur eða traustar heimildir?

Aldur Jeanne Louise Calment, sem áður var getið, hefur verið staðfestur eins og fram kemur í skýrslu frá Max Planck lýðfræðistofnuninni í Þýskalandi. Safnað var saman „einföldum ummælum“ hennar sjálfrar sem tengdust henni eða ættingjum hennar og „auðvelt var að sannreyna“. Þessi ummæli voru síðan borin saman við samtímaatburði sem hægt var að fletta upp í opinberum skrám, þinglýstum skjölum, kirkjubókum, blaðagreinum og manntölum. Það er athyglisvert að þótt ómögulegt væri að staðfesta hvert einasta smáatriði gerðu beinar og óbeinar heimildir það mögulegt að sannreyna aldur hennar.

En hvað má þá segja um frásögurnar í Biblíunni? Hafa þær reynst trúverðugar? Vissulega. Enda þótt öll smáatriði hafi ekki verið staðfest með tiltækum veraldlegum heimildum hefur aftur og aftur komið í ljós að það sem greint er frá í Biblíunni er áreiðanlegt miðað við mankynssöguna, vísindi og tímatal. * Það ætti ekki að koma á óvart því að í Biblíunni segir: „Guð skal reynast sannorður þótt sérhver maður reyndist lygari.“ (Rómverjabréfið 3:4) Biblían er bók sem er „innblásin af Guði“ og hefur ekki neinn hugarburð að geyma. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Móse naut leiðsagnar Jehóva Guðs við að skrifa fyrstu fimm bækur Biblíunnar. Hann hlýtur að teljast einn áhrifamesti og virtasti maðurinn í sögu mannkyns. Gyðingar líta á hann sem mestan allra lærimeistara sinna. Múslimar telja hann meðal mestu spámannanna. Og í augum kristinna manna fyrirmyndaði Móse Jesú Krist. Er þá skynsamlegt að ætla að ekki sé hægt að leggja trúnað á ritverk svo mikilvægrar sögulegrar persónu?

Var tíminn talinn á annan hátt?

Sumir telja að tíminn hafi verið mældur á annan hátt í þá daga og að það sem kallaðist ár hafi í raun verið mánuður. Athugun á frásögunni í 1. Mósebók sýnir, svo ekki verður um villst, að fólk hafi þá skynjað tímann á sama hátt og nú. Tökum tvö dæmi. Í frásögunni af flóðinu segir að flóðið hafi byrjað þegar Nói var 600 ára gamall, „á sautjánda degi annars mánaðar“. Frásagan heldur síðan áfram og segir að vötnin hafi hulið jörðina í 150 daga og að „örkin kenndi grunns á Araratsfjöllum í sjöunda mánuðinum, á sautjánda degi mánaðarins“. (1. Mósebók 7:11, 24; 8:4) Sagt er að fimm mánaða tímabil, frá 17. degi annars mánaðar til 17. dags sjöunda mánaðar sama árs, hafi verið 150 dagar. Það er því algerlega tilhæfulaust að halda því fram að árið hafi í rauninni verið mánuður.

Lítum nú á hitt dæmið. Samkvæmt 1. Mósebók 5:15-18 var Mahalalel 65 ára þegar hann eignaðist son. Hann lifði í 830 ár eftir fæðingu sonarins og dó 895 ára. Enok, sonarsonur hans, eignaðist líka son 65 ára að aldri. (1. Mósebók 5:21) Hefði hvert ár aðeins verið einn mánuður hefðu báðir þessir menn orðið feður aðeins fimm ára gamlir! Getur það staðist?

Fornleifafræðin kemur líka inn í myndina því að hún styður staðhæfingar í Biblíunni varðandi einstaklinga sem urðu mjög langlífir. Í Biblíunni er sagt að ættfaðirinn Abraham hafi verið frá borginni Úr og hafi svo búið í borginni Haran og síðan í Kaananlandi og að hann hafi barist við Kedorlaómer konung í Elam og sigrað hann. (1. Mósebók 11:31; 12:5; 14:13-17) Fornleifafundir hafa staðfest að þessir staðir og þessar persónur voru til. Fornleifafræðin hefur líka varpað ljósi á ýmsa staðhætti og siði þjóða sem eru nefndar í tengslum við Abraham. Þar sem þessar staðhæfingar Biblíunnar varðandi Abraham eru nákvæmar, hví skyldi það þá vera nokkrum vafa undirorpið að hann hafi náð 175 ára aldri? — 1. Mósebók 25:7.

Þar af leiðandi er ástæðulaust að efast um að Biblían fari með rétt mál þegar hún segir að til forna hafi sumir náð óvenjulega háum aldri. En þér er ef til vill spurn hvernig langlífi þessa fólks snerti þig.

Þú getur lifað lengur en þú heldur

Einstaklega hár aldur fólks fyrir flóðið sýnir fram á að mannslíkaminn sé gæddur þeim sérstaka hæfileika að geta lifað mjög lengi. Nútímatækni hefur gert vísindamönnum kleift að rannsaka náið hve vel mannslíkaminn er úr garði gerður, þar á meðal undraverða hæfni hans til að endurnýjast og læknast af sjálfsdáðum. Hver er niðurstaða þeirra? Mannslíkaminn gæti lifað að eilífu. „[Öldrun] er ein af stóru ráðgátum læknavísindanna,“ segir Tom Kirkwood, prófessor í læknisfræði.

Fyrir Jehóva Guði er öldrun hvorki ráðgáta né óleysanlegt vandamál. Hann skapaði fyrsta manninn Adam fullkominn og fyrirhugaði að láta mennina lifa að eilífu. Því miður ákvað Adam að snúa baki við Guði. Afleiðingarnar voru þær að Adam syndgaði og varð ófullkominn. Þetta er skýringin sem vísindamenn hafa verið að leita að: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Synd og ófullkomleiki er ástæða þess að við veikjumst, verðum ellihrum og deyjum.

En upphafleg áform hins kærleiksríka skapara okkar hafa ekkert breyst. Til merkis um það gaf hann son sinn, Jesú Kristi, sem lausnarfórn til að gefa mönnum kost á fullkomleika og eilífu lífi. Í Biblíunni segir: „Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ (1. Korintubréf 15:22) Fyrir flóðið var fólk nær fullkomleikanum en við og lifði þess vegna lengur, mun lengur en við gerum nú. En á hinn bóginn erum við nær þeim tíma þegar fyrirheit Guðs rætast. Brátt verða öll ummerki syndar og ófullkomleika horfin og fólk mun ekki þurfa að hrörna og deyja. — Jesaja 33:24; Títusarbréfið 1:2.

Hvernig getur þú hlotið þessa blessun? Ekki hugsa sem svo að fyrirheit Guðs sé bara draumur. Jesús sagði: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf.“ (Jóhannes 5:24) Aflaðu þér þess vegna biblíuþekkingar og farðu eftir því sem þú lærir. Ef þú gerir það fylgir þú fordæmi þeirra sem Páll postuli sagði að væru að „safna . . . handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf“. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Þú getur treyst því að Guð, sem lét nafngreinda einstaklinga í Biblíunni ná mjög háum aldri, getur látið þig lifa að eilífu.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Nákvæmari skýringar má finna í bókinni The Bible — God’s Word or Man’s? gefin út af Vottum Jehóva.

[Línurit á bls. 9]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

1000*

969* METÚSALA

950* NÓI

930* ADAM

900*

800*

700*

600*

500*

400*

300*

200*

100* NÚTÍMAMAÐURINN

*ALDUR