Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu þakklátur

Vertu þakklátur

3. Ráð

Vertu þakklátur

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? „Þakkið alla hluti.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:18.

HVERS VEGNA ER ÞAÐ EKKI AUÐVELT? Við erum umkringd fólki sem er hrokafullt og vanþakklátt og við getum hæglega smitast af viðmóti þess. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Okkur getur auk þess fundist við þurfa að gera sífellt meira þó að við eigum nógu annríkt fyrir. Við getum orðið svo gagntekin af eigin áhyggjum eða orðið svo niðursokkin í að sinna hugðarefnum okkar að við gefum okkur ekki tíma til að meta það sem við höfum nú þegar eða sýna þakklæti fyrir það sem aðrir gera fyrir okkur.

HVAÐ GETURÐU GERT? Taktu þér tíma til að hugsa um allt það góða sem þú nýtur núna. Vandamál geta auðvitað gagntekið huga þinn, en hugsaðu um Davíð konung. Stundum brást kjarkurinn honum og hann var langt niðri vegna erfiðleika. En hann sagði samt í bæn til Guðs: „Ég . . . hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ (Sálmur 143:3-5) Davíð var þakklátur og hélt gleði sinni þrátt fyrir erfiðleikana.

Hugsaðu um það sem aðrir hafa gert til að hjálpa þér og sýndu þakklæti þitt fyrir það sem þeir lögðu á sig. Jesús er okkur frábært fordæmi í þessu. Til dæmis gagnrýndu sumir að María, sem var í vinahópi hans, skyldi hella dýrri olíu á höfuð hans og fætur og spurðu: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum?“ * Þeim fannst að það hefði átt að selja olíuna og gefa fátækum andvirðið. Jesús svaraði þeim: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana?“ og hann bætti við: „Hún gerði það sem í hennar valdi stóð.“ (Markús 14:3-8; Jóhannes 12:3) Í stað þess að einblína á það sem María gerði ekki var Jesús þakklátur fyrir það sem hún gerði.

Sumir kunna ekki að meta fjölskylduna, vinina og önnur gæði sem þeir njóta fyrr en það er of seint. Það er miður. Þú getur komið í veg fyrir að það hendi þig með því að hugleiða það góða sem þú nýtur nú þegar. Hvernig væri að gera lista, í huganum eða á blað, yfir allt sem þú ert þakklátur fyrir?

Þar sem „sérhver góð gjöf“ er upprunalega frá Guði er vel við hæfi að þakka honum í bæn. (Jakobsbréfið 1:17) Ef við gerum það reglulega hjálpar það okkur að vera þakklát og gerir okkur sátt og ánægð. — Filippíbréfið 4:6, 7.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Á fyrstu öld var það merki um gestrisni að hella olíu á höfuð gesta og merki um auðmýkt að hella olíu á fætur þeirra.

[Mynd á bls. 6]

Þakkarðu öðrum það sem þeir gera fyrir þig?