Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varastu að bera þig saman við aðra

Varastu að bera þig saman við aðra

2. Ráð

Varastu að bera þig saman við aðra

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra.“ — Galatabréfið 6:4.

HVERS VEGNA ER ÞAÐ EKKI AUÐVELT? Við höfum tilhneigingu til að bera okkur saman við aðra — stundum við þá sem eiga minna en við, en oft við þá sem eru sterkari, efnaðri eða hæfileikaríkari. Á hvorn veginn sem samanburðurinn er eru áhrifin neikvæð. Við gerum þá skyssu að meta manngildi eftir því sem fólk á eða er fært um að gera. Og kannski kyndum við líka undir öfund og keppnisanda. — Prédikarinn 4:4.

HVAÐ GETURÐU GERT? Reyndu að sjá þig sömu augum og Guð sér þig. Láttu viðhorf hans hafa áhrif á sjálfsmynd þína. „Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Guð metur þig eftir því sem býr í hjarta þínu en ekki með því að bera þig saman við aðra. Hann rannsakar hugsanir þínar, tilfinningar og áform. (Hebreabréfið 4:12, 13) Guð gerir sér grein fyrir takmörkum þínum og vill að þú takir einnig tillit til þeirra. Ef þú metur sjálfan þig með því að bera þig saman við aðra verðurðu annaðhvort hrokafullur eða verður alltaf óánægður með þig. Vertu því hógvær og sættu þig við að geta ekki skarað fram úr á öllum sviðum. — Orðskviðirnir 11:2.

Hvað þarftu að gera öðru fremur til að vera verðmætur í augum Guðs? Hann innblés spámanninum Míka að skrifa: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ (Míka 6:8) Ef þú fylgir þessu ráði ber Guð umhyggju fyrir þér. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Er hægt að hafa betri ástæðu til að una glaður við sitt?

[Mynd á bls. 5]

Jehóva Guð metur okkur eftir því sem býr í hjartanu.