Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Af hverju á ég enga vini?

Af hverju á ég enga vini?

Þú ert á netinu að skoða myndir sem teknar voru í partíi fyrir stuttu. Allir vinir þínir eru þarna og skemmta sér greinilega mjög vel. En það vantar eitthvað á myndirnar eða réttara sagt einhvern – þig.

„Af hverju var mér ekki boðið?“ hugsarðu með þér.

Forvitnin breytist í biturð. Þér finnst þú hafa verið svikinn. Það er eins og þú hafir misst alla vini þína, og það sem þú hefur byggt upp með þeim hrynur eins og spilaborg. Einmanaleikinn hellist yfir þig, og þú spyrð þig: „Af hverju á ég enga vini?“

 Próf

 Rétt eða rangt?

  1.   Ef þú átt fullt af vinum verðurðu aldrei einmana.

  2.   Ef þú skráir þig á samskiptasíðu verðurðu aldrei einmana.

  3.   Ef þú sendir mörg textaskilaboð verðurðu aldrei einmana.

  4.   Ef þú ert duglegur að gera eitthvað fyrir aðra verðurðu aldrei einmana.

 Allar staðhæfingarnar eru rangar.

 Hvers vegna?

 Staðreyndir um vináttu og einmanaleika

  •   Að eiga fullt af vinum er engin trygging fyrir því að maður verði ekki einmana.

     „Mér þykir vænt um vini mína en mér finnst stundum eins og þeim þyki ekki vænt um mig. Maður er aldrei eins einmana og þegar maður er innan um fullt af vinum sem virðast ekki þykja mjög vænt um mann eða hafa þörf fyrir mann.“ – Anne.

  •   Að skrá sig á samskiptasíðu er engin trygging fyrir því að maður verði aldrei einmana.

     „Sumir safna vinum eins og aðrir safna styttum. Þetta hefur þó ekki reynst vera leiðin til að fá væntumþykju. Ef þú átt ekki nána vini hafa vinir á Netinu ekkert meira gildi fyrir þig en lífvana styttur.“ – Elaine.

  •   Að senda mörg textaskilaboð er engin trygging fyrir því að þú verðir aldrei einmana.

     „Stundum þegar maður er einmana lítur maður aftur og aftur á símann til að sjá hvort einhver hafi sent skilaboð. En ef maður er þegar einmana gerir það bara illt verra að sjá að enginn hefur reynt að ná í mann.“ – Serena.

  •   Að vera duglegur að gera eitthvað fyrir aðra er engin trygging fyrir því að maður verði aldrei einmana.

     „Ég hef alltaf reynt að vera örlátur við vini mína. En ég hef tekið eftir að þeir hafa ekki komið eins fram við mig. Ég sé ekki eftir því að hafa verið örlátur við þá en mér finnst pínu skrýtið að ég fæ eiginlega ekkert til baka.“ – Richard.

 Niðurstaða: Einmanaleiki snýst fyrst og fremst um hugarfar. „Hann kemur innan frá en stafar ekki af utanaðkomandi aðstæðum,“ segir ung kona sem heitir Jeanette.

 Hvað geturðu gert ef þú ert einmana og finnst þú ekki eiga neina vini?

 Hvernig getur maður sigrað í baráttunni?

Efldu sjálfstraustið.

 „Einmanaleiki getur stafað af óöryggi. Það er erfitt að vera opinn fyrir vináttu við aðra ef manni finnst maður ekki þess verður að fá athygli annarra. – Jeanette.

 Biblían segir: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Galatabréfið 5:14) Til að njóta heilbrigðrar vináttu þurfum við að hafa sjálfsvirðingu í einhverjum mæli – án þess þó að verða hrokafull. – Galatabréfið 6:3, 4.

Forðastu sjálfsvorkunn.

 „Einmanaleiki er eins og kviksyndi. Því meir sem maður veltir sér upp úr honum þeim mun erfiðara er að losna úr viðjum hans. Ef þú leyfir honum að gleypa þig líður ekki á löngu áður en sjálfsvorkunnin heltekur þig en það bara fráhrindandi.“ – Erin.

 Biblían segir: „Kærleikurinn ... leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Málið er að þegar við hugsum of mikið um sjálf okkur gleymum við að sýna öðrum skilning og áhuga og þar af leiðandi löðum við fólk ekki að okkur. (2. Korintubréf 12:15) Eitt er víst: Ef þú lætur framkomu annarra skera úr um það hvort þú sért hamingjusamur eða ekki er það ávísun á vonbrigði. Með því að segja: „Það hringir aldrei neinn í mig“ og „mér er aldrei boðið með“ seturðu hamingju þína í hendur annarra. Ertu þá ekki að gefa öðrum aðeins of mikið vald yfir þér?

Ekki sætta þig við hvaða vini sem er.

 „Þeir sem eru einmana hafa þörf fyrir athygli og þörfin getur orðið svo aðkallandi að það skiptir ekki máli frá hverjum athyglin kemur. Maður vill bara finna að einhver hafi þörf fyrir mann. Sumir láta manni finnast það en eru síðan bara að nota mann. Þá finnur maður meira en nokkurn tíma áður fyrir einmanaleikanum.“ – Brianne.

 Biblían segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Sá sem sveltur myndi borða nánast hvað sem er. Á sama hátt gætu þeir sem sárvantar vini leitað eftir vinum hvar sem er. Þeir gætu orðið auðveld bráð fólks sem vill stjórna öðrum og þeim gæti jafnvel fundist slík vináttutengsl vera eðlileg og að þeir eigi ekkert betra skilið.

 Niðurstaða: Öll verðum við einmana inn á milli, við finnum bara mismikið fyrir því. Að vera einmana getur verið hræðileg tilfinning en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta samt bara tilfinning. Tilfinningar okkar kvikna oftast út frá því sem við hugsum og við getum stjórnað hugsunum okkar.

 Þú skalt heldur ekki búast við of miklu af öðrum. „Það eiga ekki allir eftir að vera bestu vinir þínir að eilífu,“ segir Jeanette, sem vitnað var í fyrr í greininni, „en þú átt eftir að finna fólk sem er annt um þig. Og það er nóg. Það kemur í veg fyrir að maður verði einmana.

 Viltu meiri aðstoð? Lestu rammann „ Að sigrast á ótta við höfnun“. Þú getur líka hlaðið niður vinnublaðinu „Að vinna sig út úr einmanaleika“.