Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég sigrast á einelti?

Hvernig get ég sigrast á einelti?

 Einelti er ekkert grín. Í könnun, sem gerð var í Bretlandi, kom fram að einelti virðist hafa átt þátt í meira en 40 prósentum sjálfsvíga ungs fólks sem sagt var frá í fjölmiðlum landsins.

 Hvað er einelti?

 Einelti er ekki bara líkamsmeiðingar. Það getur líka birst í eftirfarandi myndum:

  •   Meiðandi orð. „Stelpur geta verið grimmar í tali,“ segir Celine (20 ára). „Ég gleymi aldrei því sem þær sögðu við mig og hvernig þær uppnefndu mig. Þær létu mig finna að ég væri óvelkomin, einskis virði og gagnslaus. Ég hefði frekar viljað að þær hefðu lamið mig.“

  •   Útskúfun. „Skólafélagar mínir útilokuðu mig,“ segir Haley (18 ára). „Þeir létu sem það væri ekkert pláss fyrir mig við matarborðið svo að ég fékk ekki að sitja hjá þeim. Allt árið borðaði ég hádegismatinn minn ein og ég grét mikið.“

  •   Rafrænt einelti. „Það er hægt að eyðileggja mannorð fólks og jafnvel líf þess með því að skrifa eitthvað smá í tölvunni án þess að hugsa,“ segir Daniel (14 ára). „Þetta hljómar eins og ýkjur en getur vel gerst.“ Rafrænt einelti felur líka í sér að senda niðurlægjandi myndir eða textaskilaboð í gegnum símann.

 Hvers vegna leggur fólk aðra í einelti?

 Hér eru nokkrar algengar ástæður:

  •   Það hefur sjálft verið lagt í einelti. „Ég var orðinn dauðþreyttur á því hvernig krakkarnir fóru með mig svo að ég byrjaði að leggja aðra í einelti bara til að passa inn í hópinn,“ viðurkennir ungur maður sem heitir Antonio. „Seinna þegar ég leit til baka skildi ég hvað það var rangt af mér að gera slíkt.“

  •   Fyrirmyndirnar eru slæmar. „Ungt fólk, sem leggur aðra í einelti, er oft að líkja eftir framkomu ... foreldra sinna, eldri systkina eða annarra í fjölskyldunni,“ skrifar Jay McGraw í bók sinni Life Strategies for Dealing With Bullies.

  •   Þeir þykjast öruggir með sig en eru litlir í sér. „Bak við harðan skráp og hrjúft yfirborð geranda eineltis má oftar en ekki finna óánægða og særða sál,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur, í bók sinni Ekki meir.

 Hver eru líklegustu fórnarlömbin?

  •   Einfarar. Sumt ungt fólk skortir hæfni í mannlegum samskiptum. Það einangrar sig og verður þannig auðvelt skotmark eineltisseggja.

  •   Ungt fólk sem er álitið öðruvísi. Eineltisseggir leggja stundum aðra í einelti út af útliti, kynþætti, trú eða jafnvel fötlun. Það getur verið hvaðeina sem þeim dettur í hug að nota.

  •   Unglingar með neikvæða sjálfsmynd. Eineltisseggir geta sigtað þá út sem eru með neikvæða sjálfsmynd. Þeir eru ólíklegir til að standa uppi í hárinu á þeim og því auðveld fórnarlömb.

 Hvað geturðu gert ef þú verður fyrir einelti?

  •   Láttu sem ekkert sé. „Eineltisseggir vilja sjá að þeim hefur tekist að niðurlægja þig,“ segir ung kona að nafni Kylie. „Ef þú lætur sem ekkert sé missa þeir áhugann.“ Biblían segir: „Vitur maður hefur stjórn á [reiði sinni].“ – Orðskviðirnir 29:11.

  •   Ekki gjalda í sömu mynt. Það gerir bara illt verra að hefna sín. Biblían segir: „Gjaldið engum illt fyrir illt.“ – Rómverjabréfið 12:17; Orðskviðirnir 24:19.

  •   Ekki koma þér í vandræði. Reyndu eftir fremsta megni að forðast eineltisseggi og aðstæður þar sem einelti gæti átt sér stað. – Orðskviðirnir 22:3.

  •   Komdu með óvænt svar. Biblían segir: „Mildilegt svar stöðvar bræði.“ – Orðskviðirnir 15:1.

  •   Notaðu skopskynið. Til dæmis segir einhver að þú sért fitubolla. Þú gæti bara yppt öxlum og sagt: „Finnst þér það? Ég ætti kannski að fara í megrun.“

  •   Labbaðu í burtu. „Með því að svara engu sýnirðu að þú sért þroskaður og sterkari en sá sem áreitir þig,“ segir Nora (19 ára). „Það ber merki um sjálfstjórn, en eineltisseggir geta ekki státað sig af henni.“

  •   Styrktu sjálfsmyndina. „Eineltisseggir taka eftir því þegar manni líður ekki vel,“ segir stelpa sem heitir Rita. „Og þeir gætu notað það til að brjóta niður það litla sjálfstraust sem maður kann að hafa.“

  •   Segðu frá. Í einni könnun kemur fram að um helmingur fórnarlamba rafræns eineltis segi ekki frá því. Þetta sé líklega út af skömm (á sérstaklega við um stráka) eða ótta við hefnd. En mundu að eineltisseggir þrífast á þögninni. Fyrsta skrefið í þá átt að binda enda á martröðina getur vel verið að segja einhverjum frá.